Námið
Rannsóknir
HR

11. september 2025

Dr. Hallur Þór Sigurðarson skipaður dósent við viðskipta- og hagfræðideild

Dr. Hallur Þór Sigurðarson hefur verið skipaður dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík byggt á mati dómnefndar. Í áliti nefndarinnar segir að Hallur Þór hafi fest sig í sessi sem sjálfstæður fræðimaður. Hann hefur gefið út fjölda rita, er reyndur kennari og hefur gegnt ýmsum kennslustörfum og ábyrgðarhlutverkum við Háskólann í Reykjavík.

Hallur sérhæfir sig í frumkvöðlafræði og skipulagsheildum. Nýlegar rannsóknir hans hafa m.a. beinst að samspili frumkvöðlastarfsemi og lista og notkun gervigreindar hjá hinu opinbera.

Auk rannsókna sinna starfar Hallur sem forstöðumaður framhaldsnáms og hefur leikið lykilhlutverk í kennslu á meistarastigi, þar sem hann hefur m.a. kennt frumkvöðlafræði, nýsköpun, siðfræði og rannsóknaraðferðir. Hann er einnig leiðbeinandi tveggja doktorsverkefna sem eru í vinnslu.

Hallur er með doktorsgráðu í frumkvöðla- og stjórnunarfræðum frá Copenhagen Business School og meistaragráðu frá sama háskóla í viðskiptafræði og heimspeki. Hann hefur starfað við Háskólann í Reykjavík í hartnær áratug og einnig verið gestarannsakandi við University of Queensland og Copenhagen Business School.

Í nefndinni sátu Dr. Ender Demir, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, Dr. Berit Hartmann, dósent við viðskiptafræðideild Háskólans í Gautaborg og Dr. Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir