12. júní 2024
Gríðarleg tækifæri fyrir nemendur innan NeurotechEU háskólanetsins
12. júní 2024
Gríðarleg tækifæri fyrir nemendur innan NeurotechEU háskólanetsins
Telma Ósk Þórhallsdóttir, tölvunarfræðinemi við Háskólann í Reykjavík, sótti nýverið European Student Assembly í Strasbourg fyrir hönd skólans í gegnum NeurotechEU háskólanetið. Viðburðurinn er haldinn á vegum Evrópska háskólabandalagsins (e.European University Alliance) og var nú haldinn í þriðja sinn.

Rúmlega 200 nemendur taka þátt í hvert skipti, annað hvort sem almennir þáttakendur, eða sem skipuleggjendur sem halda utan um hópana. Nemendum er skipt í 11 hópa sem fá úthlutað einum málaflokki og vinna saman í nokkra mánuði við að lesa sér til og mynda tillögur. Að því loknu rökræða þátttakendur tillögurnar þvert á hópa, gefa álit sitt og veita gagnrýni. Því næst er kosið um bestu tillögurnar.

Ég var almennur þátttakandi í hópi sem kallaðist Cure for the future og einblíndi á framfarir í líflæknisvísindum og heilbrigðisgeiranum. Þá var ég álitsgjafi í hópi sem einblíndi á umhverfismál og öðrum sem fjallaði um aðgengi að háskólamenntun. Minn hópur lagði fram sex tillögur sem allar voru samþykktar. Meðal tillagana var tillaga þess efni að aðildarríki ESB myndu setja saman aðgerðaráætlun til að flýta fyrir upptöku tækninýunga meðal eldri borgara sem myndi auðvelda þeim að búa lengur heima hjá sér. Einnig lögðum við fram hugmynd að gerð gervigreindargrunns sem myndi þjónusta fólk áður en það leitar sér heilbrigðisaðstoðar og bæta flæði sjúklinga í heilbrigðisgeiranum ásamt því að draga úr óþarfa læknisheimsóknum og draga úr biðtíma.

Telma Ósk segir þátttökuna hafa veitt frábært tækifæri til að kynna sér ýmis regluverk ESB og hljóta innsýn í þau störf sem unnin eru innan sambandsins. Þá hafi verið dýrmæt reynsla að kynnast háskólanemum víðsvegar að frá Evrópu úr ólíkum deildum og háskólastigi.
Það að fá að vinna með þeim, rökræða og almennt að fá að kynnast þeim var frábært og ég eignaðist marga góða vini þarna úti. Það leynast gríðarleg tækifæri fyrir nemendur innan NeuroTechEU í verkefnum sem þessum þar sem nemendum er gert kleift að kynnast öðrum menningarheimum, hafa áhrif á samfélagið og þroskast sem einstaklingar ásamt því að víkka tengslanet sitt.
Telma hefur nýlokið sínu fyrsta ári í náminu sem hún segir hafa reynst mjög áhugavert. Margir möguleikar séu í boði bæði í áframhaldandi námi og starfi en hún sér helst fyrir sér að vinna með gervigreind eða í netöryggisgeiranum. Auk þess muni hún mjög líklega hafa annan fótinn eitthvað í pólitík.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir