29. mars 2023
Nýtt meistaranám við HR í stafrænni heilbrigðistækni
29. mars 2023
Nýtt meistaranám við HR í stafrænni heilbrigðistækni
New masters‘ program at RU: Digital Health
Haustið 2023 mun Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á nýtt meistaranám (M.Sc.) í stafrænni heilbrigðistækni (digital health). Um er að ræða þverfaglegt brautryðjendanám, sem hefur verið hannað og þróað í samstarfi tölvunarfræðideildar og verkfræðideildar háskólans. Námið verður einnig í boði sem staðarnám á Akureyri. Verkefnið hlaut veglegan styrk úr Samstarfssjóði háskóla hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu í upphafi árs 2023. Náminu er ætlað að skapa tækifæri til nýsköpunar í stafrænni heilbrigðistækni og mennta leiðtoga í hönnun, þróun og nýtingu heilbrigðisgagna.
Þróað fyrir þarfir samfélags og atvinnlífsins
„Í náminu hyggjumst við samþætta þekkingu úr framsæknu vísindastarfi í stafrænni heilbrigðistækni sem unnið er í HR og tvinna hana svo saman við þarfir og þróun tengdra atvinnugreina. Námið er þróað í samræmi við þarfir samfélags og atvinnulífs og nýtur nú þegar stuðnings og samstarfs öflugra fyrirtækja í bæði upplýsingatækni og heilbrigðisgeiranum. Hugmyndin er sú að leiða saman nemendur sem lokið hafa grunnnámi í tæknigreinum og nemendur með grunnnám í heilbrigðisvísindum til að vinna saman við að skapa öfluga stafræna heilbrigðistækni sem mun vera samfélaginu í heild sinni til góðs," segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.
Brennandi áhugi á umbótum
„Þetta nýja meistaranám er mikilvægt skref í áttina að því að mennta hér sérfræðinga með sérþekkingu í að nýta gögn úr heilbrigðiskerfinu til góðs. Tækifærin til að tæknivæða heilbrigðiskerfið eru svo sannarlega til staðar, til dæmis eru alls kyns ferlar sem er hægt að bæta með tækninýjungum. Þetta meistaranám er afskaplega hentugt fyrir fólk sem hefur brennandi áhuga á því að bæta heilbrigðiskerfið með nýstárlegri, stafrænni og gagnadrifinni umbyltingu," segir Anna Sigríður Islind, dósent við tölvunarfræðideild og forstöðukona nýja meistaranámsins í stafrænni heilbrigðistækni.
Háleit markmið um framtíðarsýn
„Heilbrigðisgeirinn er meðal helstu hagsmunaaðila í stafrænu byltingunni og mun hagnast ótrúlega mikið á hinni öru tækniframþróun samtímans. Stafræn sjúkraskrá fyrir sjúklinga, stöðlun á læknisfræðilegum gögnum og verklagi, klínískt mat og gervigreindartækni eru meðal þeirra atriða sem fagfólk í heilbrigðisgeiranum þarf að takast á við og tileinka sér. Stafræn heilbrigðistækni miðar að því að þróa akademísk og klínísk verkfæri til að hámarka skilvirkni og innleiða umbætur í heilbrigðisgeiranum. Við höfum háleit markmið um að sníða námið annars vegar að fyrra námi og störfum nemenda og hins vegar að framtíðarsýn viðkomandi," segir Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild og forstöðumaður heilbrigðistækniseturs HR.
/////
Designed and developed with the needs of society and industry in mind
Catering to students with a desire to design and develop the future of digital health
A large-scale vision of catering to the future
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir