18. mars 2025
Besti árangur HR-inga til þessa í alþjóðlegri háskólakeppni í fjármálaviðskiptum
18. mars 2025
Besti árangur HR-inga til þessa í alþjóðlegri háskólakeppni í fjármálaviðskiptum
Lið HR náði 14. sæti í Rotman International Trading Competition (RITC) sem er stærsta alþjóðlega háskólakeppnin í fjármálaviðskiptum. Er þetta besti árangur skólans til þessa. Í liðinu voru þeir Helgi Hrannar Briem, Andri Sæberg Diego, Hjörtur Kristjánsson og Einar Andri Briem nemendur í verkfræðideild og viðskipta- og hagfræðideild.

Um nokkurra ára skeið hefur verið haldið úti hagnýtu valnámskeiði innan viðskipta- og hagfræðideildar HR um verðbréfaviðskipti í tengslum við Rotman Interacive Trader (RITC). Í lok hvers námskeið eru valdir nemendur til að taka þátt í keppninni. Með hópnum í för var Sævarður Einarsson, kennari við viðskipta- og hagfræðideild sem segir undirbúning hafa gengið vel og liðið verið til fyrirmyndar.
Námskeiðið er hugsað sem undirbúningur fyrir keppnina ásamt því að kynna nemendur fyrir fjármálamörkuðum og virkni þeirra. Fyrstu vikurnar eru fyrirlestrar og svo notum við RIT forritið frá Rotman þar sem við förum í gegnum ákveðið tilfelli (case) þar sem áhersla er lögð á afmarkað verkefni tengt fjármálamörkuðum. Keppnin og undirbúningur gekk mjög vel hjá liðinu og augljóst að þeir höfðu metnað fyrir því að leggja vinnu í undirbúning sem skilaði sér svo í góðum árangri í keppninni sjálfri. Liðið var alveg til fyrirmyndar fyrir HR.
RITC keppnin var haldin í Toronto dagana 20. – 21. febrúar nk. af Rotman School of Management við University of Toronto. Notuð eru sérsmíðuð verkefni í RIT markaðsherminum þar sem öll lið keppa á móti hvort öðru í rauntíma. Keppnin stendur yfir í tvo daga þar sem farið í er í gegnum sex mismunandi verkefni. Nemendur fá tækifæri til að reyna á hæfni sína á móti nemendum hvaðanæva að úr heiminum auk þess að fá tækifæri til þessa að taka þátt í viðburðum og byggja upp tengslanet.
Fulltrúar frá 35 háskólum frá 13 löndum tóku þátt og þeirra á meðal eru margir af virtustu viðskiptaháskólum heims. Hópurinn segir keppnina hafa verið krefjandi en um leið lærdómsríka.
Í RITC reynir á færni keppenda í verðlagningu fjármálagerninga, áhættustýringu og greiningu auk þess sem áhersla er lögð á samskipti og teymisvinnu. Undirbúningur fyrir keppnina krafðist mikillar vinnu við að útbúa áætlanir, greiningarlíkön og forrit. Þar nýttist okkur vel að hafa lært á RIT forritið, sem er notað í keppninni, á námskeiðinu og hafa spreytt okkur á verkefnum sem sum hver eru svipuð þeim sem við fengum í keppninni. Þá býr Sævarður yfir mikilli reynslu úr fjármálageiranum og hefur tekið þátt í RITC síðustu ár sem kom að góðum notum í undirbúningnum fyrir keppnina.
Þeir segjast allir hafa mikinn áhuga á fjármálamörkuðum og geta séð fyrir sér að starfa á því sviði í framtíðinni. Þeir hafi öðlast dýrmæta reynslu fyrir framtíðina með keppninni sem muni nýtast þeim á einn eða annan hátt í fjármálatengdum störfum.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir