Námið
Rannsóknir
HR

11. ágúst 2025

Mikilvægt að upplifa sem mest og njóta hverrar stundar

Nú við upphaf skólaárs streyma í HR bæði nýnemar og lengra komnir nemendur. Við fengum Særúnu Björk Jónasdóttur, forseta stúdentafélags HR (SFHR), til að gefa nemendum nokkur góð ráð fyrir komandi önn og segja frá því sem framundan er í félagslífinu.

Særún Björk Jónasdóttir er nýkjörinn formaður SFHR.

Ég hvet nemendur til að njóta þess að vera í námi, taka virkan þátt í háskólalífinu og nýta háskólagönguna til að kynnast samnemendum, kennurum og starfsfólki skólans. Að sjálfsögðu er námið mikilvægt, en ekki gleyma að njóta þess líka. Tíminn hérna líður hratt, svo grípið öll tækifæri sem gefast, upplifið sem mest og njótið hverrar stundar.

Særún bendir líka á að nýta sér aðstöðuna við HR og mæta á viðburði sem sé frábær leið til að kynnast samnemendum sínum;

Sólin og bókasafnið eru frábærir staðir til að læra, hvort sem er í hópi eða í rólegheitum. Ég mæli líka með að nýta hádegishléin til að fá sér góðan mat í Málinu– hvort sem það er matur dagsins eða salatbarinn. Svo er það auðvitað að skrá sig í nemendafélag og mæta á viðburði.

Særún segir fólkið sem maður kynnist í HR, bæði samnemendur og starfsfólk, vera stóran hluta af því sem geri HR að frábærum stað. Samskiptin við kennara séu einstaklega góð og félagslífið í HR líflegt og fjölbreytt.

Það sem mér finnst best við að vera HR-ingur er sambland af frábæru félagslífi, góðum samskiptum og hlýju umhverfi. Innan HR skapast tengsl, vinátta og stuðningur sem fylgir manni langt út fyrir námið. Umhverfið sjálft er svo hvetjandi – góðar aðstæður og skapandi andrúmsloft þar sem alltaf er rými fyrir hugmyndir og frumkvæði.

Nýnemadagar í HR fara fram dagana 14.-15. ágúst og nýnemapartý SFHR verður haldið 29. ágúst.


Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir