Námið
Rannsóknir
HR

16. september 2025

Rarik verður hluti af samstarfsneti HR og MIT

Rarik er orðinn hluti af samstarfsneti Háskólans í Reykjavík og MIT háskólans í Boston. Veitist fyrirtækinu þar með sértækur aðgangur að víðtækri þekkingu innan MIT. Háskólarnir hafa um árabil átt í farsælu samstarfi en það felur m.a. í sér að HR getur boðið völdum, íslenskum fyrirtækjum að vera partur af samstarfsneti HR og MIT. 

Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla, segir mikinn hag að samstarfinu fyrir íslensk fyrirtæki;

Einna verðmætast í samstarfinu fyrir fyrirtækin eru stuttar boðleiðir. Þannig eiga þáttakendur kost á því að óska eftir sértækum fundum við fræðimenn innan MIT með okkar milligöngu. Slíkir fundir geta orðið upphafið að árangursríku samstarfi. Þá geta fyrirtækin sótt ráðstefnur á vegum MIT án þess að greiða ráðstefnukostnað. 

Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, forseti tæknisviðs HR og aðstoðarrektor rannsókna, nýsköpunar og atvinnulífstengsla, og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Rarik, undirrita samninginn.

Fyrir fyrirtækin felur þátttaka í sér að allir starfsmenn fá aðgang að yfirgripsmiklu fræðsluefni, rannsóknum og hlaðvörpum. Starfsfólk getur sótt rafræna fræðslu og viðburði á vegum MIT auk fyrirlestra og skipulagðar vinnustofur hérlendis. Einnig hafa verið skipulagðar heimsóknir til MIT með vinnustofum, fundum og fyrirlestrum.  

Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir og Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, frá HR, Magnús Þór Ásmundsson og
Kristín Soffía Jónsdóttir frá Rarik.

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og framtíðar segir samstarf af þessu tagi mjög dýrmætt fyrir Rarik;

Við fögnum því að vera orðin hluti af þessu samstarfsneti enda mikill fengur í því að geta nálgast þekkingu og sérfræðinga innan MIT á svo aðgengilegan hátt. Með þessu samstarfi veitist okkur einstakt tækifæri til að tengjast einum virtasta háskóla heims og sækja þangað fræðslu sem styður og styrkir okkar starfsemi.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir