Námið
Rannsóknir
HR

9. október 2025

Skapandi vinnustofa Snjallræðis og Hönnunarþing í eina sæng á Húsavík

Önnur vinnustofa Snjallræðis fór fram á Húsavík dagana 26.–27. september, samhliða Hönnunarþingi Húsavíkur. Á vinnustofunni var lögð áhersla á að dýpka skilning teymanna á þörfum notenda með því að greina viðtöl sem þátttakendur höfðu tekið eftir fyrstu vinnustofuna.

Í framhaldinu hófst skapandi vinna við að kanna, hanna og skilgreina ólíkar leiðir til að mæta þessum þörfum án þess að festa sig of snemma í einni ákveðinni lausn. Markmiðið var að veita teymunum aðferðir og leiðsögn til að þróa hugmyndir áfram í átt að vöru, þjónustu eða ferli sem getur skilað raunverulegum árangri.

Umræðurnar voru líflegar og þátttakendur fengu tækifæri til að spegla hugmyndir sínar í öðrum, prófa ný sjónarhorn og stíga út fyrir þægindarammann sem reyndist afar lærdómsríkt. Vinnustofunni lauk með umræðum um upplifun þátttakenda þar sem einn þeirra lýsti því sem svo að teymið hafði farið frá ringulreið til skýrleika á tveimur dögum og fleiri teymi tóku undir þá reynslu.

Þetta var önnur vinnustofa Snjallræðis af fjórum en Háskólinni á Akureyri leiddi vinnustofuna. Að vinnustofunni komu einnig Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík en háskólarnir þrír undirrituðu samstarfssamning í ágúst um sameiginlega verkefnastjórn Snjallræðis.

Dagskrá vinnustofunnar fléttaðist við Hönnunarþingið þar sem fjölbreyttir viðburðir voru á dagskrá, allt frá eldblómum til geitapylsu, og að lokum nutu þátttakendur tónleika Mugison í Sjóböðunum á Húsavík.

Snjallræðishópurinn er nú hálfnaður á ferð sinni og þessi krefjandi og skapandi helgi á Norðurlandi mun eflaust hafa mikil áhrif á lokaútkomu Snjallræðis teymanna í ár!

Snjallræði hefur frá stofnun árið 2018 verið leiðandi vettvangur fyrir þróun framtíðarlausna er stuðla að sjálfbærni og bættu samfélagi. Í Snjallræði fá frumkvöðlar tækifæri til að þróa áfram hugmyndir sínar og gera þær að lausn, vöru eða verkefni. Snjallræði er ætlað vísindafólki, nemendum og starfsfólki háskólanna en er auk þess opið frumkvöðlum og öllum þeim sem brenna fyrir stórum hugmyndum.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir