Námið
Rannsóknir
HR

23. október 2025

Alþjóðleg ráðstefna gagnasafnssérfræðinga, SISAP 2025, haldin í HR

SISAP 2025, alþjóðleg ráðstefna færustu gagnasafnssérfræðinga heims, var haldin nýverið í Háskólanum í Reykjavík. Dr. Björn Þór Jónsson, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, var í forsvari fyrir ráðstefnuna. Hann er leiðandi sérfræðingur í gagnasafnsfræði og hefur unnið að umfangsmiklum rannsóknum á því sviði.

Líkindi eða samsvörun (similarity research) er grunnurinn að því að afla tiltekinna gagna. Þannig má t.a.m. finna út hvort mynd sé höfundagreinanleg eða greina hljóð samanber forritið Shazam sem fólk getur nýtt sér til að greina lög sem eru í spilun í umhverfi þess. Slík gagnasöfn eru einnig nýtt í uppbyggingu gervigreindar líkana.

SISAP 2025 ráðstefnuna sóttu um 60 manns víðsvegar að um heim.

Ráðstefnan í ár var sú átjánda og með þeim stærstu en hana sóttu 60 manns. Vísindafólkið kom að stærstum hluta frá Evrópu en einnig frá Bandaríkjunum, Kanada og Asíu. Björn Þór segir ánægjulegt að hafa fengið þennan góða hóp í HR og ráðstefnan sé í uppáhaldi hjá honum þar sem alltaf myndist miklar umræður og spurningar.

Dr. Björn Þór Jónsson, prófessor við tölvunarfræðideild HR, var í forsvari fyrir ráðstefnuna.

SISAP ráðstefnan er helsti vettvangur þessa tiltölulega þrönga sviðs í heiminum og þar koma saman meðal færustu sérfræðinga heims á sviðinu.Markmiðið með ráðstefnunni er að safna saman vísindamönnum og þróunaraðilum og gera þeim kleift að deila nýjum hugmyndum, aðferðum og reynslu.

Aðal fyrirlesarar frá Ítalíu, Þýskalandi og Íslandi
Ari Jónsson, framkvæmdastjóri Videntifier Technologies og fyrrum rektor Háskólans í Reykjavík, var meðal aðal fyrirlesara.

Aðal fyrirlesar ráðstefnunnar í ár voru þeir Kai Uwe Barthel, frá Institute for Media and Computing, HTW í Berlín, Franco Maria Nardini, frá CNR-ISTI, Ítalíu og Ari Jónsson, framkvæmdastjóri Videntifier Technologies og fyrrum rektor Háskólans í Reykjavík.

Erindin voru af ólíkum toga, prófessor Barthel ræddi um hvernig mætti gera stór gagnasett auðveldlega aðgengileg, prófessor Nardini tók fyrir mállíkön og hvernig má vinna með þau og loks fór Ari yfir sögu síns fyrirtækis og kom inn á hvað það getur verið erfitt að koma frábærri tækni, sem er augljóslega gagnleg, í verð!

Segir Björn Þór í léttum dúr og bætir við allt slíkt taki mikinn tíma og þolinmæði sé þar nauðsynleg.

Í ár var einnig sérstök áhersla lögð á þátttöku doktorsnema á ráðstefnunni og hluti hennar helgaður þeim. Tveir doktorsnemar frá Ítalíu og Spáni hittu sérfræðinga sem höfðu lesið ritgerð þeirra og hlutu ítarlega endurgjöf auk þess að flytja fyrirlestur fyrir allan hópinn.

Það er mjög þarft fyrir doktorsnemana að fá tækifæri til að koma sínum niðurstöðum sínum á framfæri til fólks sem getur haft áhrif á sviðinu. Um leið er það fróðlegt fyrir okkur hin að heyra hvað næsta kynslóð leggur áherslu á að rannsaka.

Segir Björn Þór að lokum.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir