17. október 2025
Dr. Paolo Gargiulo prófessor við verkfræðideild sæmdur riddaraorðu ítalska ríkisins
17. október 2025
Dr. Paolo Gargiulo prófessor við verkfræðideild sæmdur riddaraorðu ítalska ríkisins
Dr. Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður heilbrigðistækniseturs HR hlýtur riddaratign ítalska ríkisins (Knight of the Order of the Star of Italy) fyrir framlag sitt til akademísks og vísindalegs samstarfs milli Ítalíu og Íslands.
Paolo er mikilvirkur fræðimaður á sviði heilbrigðisverkfræði og frumkvöðull í þróun og þrívíddaprentun líffæralíkana til nota í klínískum aðgerðum. Hann hefur jafnframt átt stóran þátt í Erasmus-samningum og rannsóknarsamstarfi HR við fjölda virtustu háskóla Ítalíu, þar á meðal háskólann Federico II í Napólí, Luigi Vanvitelli-háskólann í Campania, Salerno-háskóla, Padua-háskóla, Bologna-háskóla og Austur-Piemonte-háskóla í Novara.

Frumkvæði Paolo á sínu rannsóknarsviði hefur gert tugi ítalskra nemenda kleift að stunda nám og rannsóknir á sviði heilbrigðisverkfræði á Íslandi og öðlast verðmæta og hagnýta reynslu við heilbrigðistæknisetur HR. Leiðsögn hans hefur skipt verulegu máli fyrir faglega þróun ungra ítalskra vísindamanna sem margir hverjir hafa hlotið akademísk embætti á Ítalíu og erlendis.
Einnig hefur vísindalegt samstarf hans við háskóla á Ítalíu stutt við þróun nýrra námsbrauta. Þar má nefna sérstaklega nýlegt samstarf við Campus Bio-Medico University of Rome um stofnun meistaranáms undir heitinu AI and Cloud in Healthcare and Public Administration.

Sndiherra Ítalíu gagnvart Íslandi, Stefano Nicoletti, og Isabella Rauti, fulltrúi utanríkisráðherra afhentu Paolo orðuna við hátíðlega athöfn í HR þann 16. október.
Við óskum Paolo innilega til hamingju með þessa merku viðurkenningu.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir