Námið
Rannsóknir
HR

4. júlí 2025

Háskólinn í Reykjavík og Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar undirrita samning

Háskólinn í Reykjavík og Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar undirrituðu samning á dögunum. Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir aðstoðarrektor náms, nemenda og sjálfbærni í HR og Guðríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar, undirrituðu samninginn.

Samningurinn snýst um að nemendur HR sem hlotið hafa styrk úr Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar fái einnig styrk frá HR með mótframlagi skólans. Markmiðið er að stuðla að auknum tækifærum til háskólanáms fyrir konur sem hafa fengið fjárhagslegan styrk frá Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar.

Frá vinstri: Margrét Hrönn Þóroddsdóttir, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, Guðríður Sigurðardóttir og Hrafntinna V. Karlsdóttir.

Bryndís Björk segir styrki mikilvæga til að auka aðgengi að háskólanámi. „Þessir styrkir bætast í flóru styrkja sem HR veitir nemum s.s. nýnemastyrkir, forsetalistastyrkir og hvatastyrkir.“ Forsetalisti og aðrir styrkir | Háskólinn í Reykjavík

Guðríður nefnir að sýnt hafi verið fram á að þegar konur fái stuðning til að mennta sig sé ekki einungis verið að efla þær sjálfar: „Þarna er verið að efla komandi kynslóðir og hjálpa heilu fjölskyldunum upp úr fátækragildrunni. Háskólinn í Reykjavík á miklar þakkir skyldar fyrir að koma til móts við sjóðinn og styrkþega hans með framlaginu og auka þannig námsmöguleika okkar öflugu styrkþega sem hafa sýnt mikla þrautseigju til að bæta framtíðarmöguleika sína.”

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar veitir námsstyrki til kvenna af öllu landinu sem búa við þröngan efnahag, oft einstæðra mæðra. Markmið sjóðsins er að styðja konur við að afla sér menntunar, hvort sem um ræðir fagnám, starfsréttindanám, framhaldsskólanám eða háskólanám.

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir og Guðríður Sigurðardóttir
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir