20. ágúst 2025
Þrír háskólar sameinast um verkefnastjórn Snjallræðis
20. ágúst 2025
Þrír háskólar sameinast um verkefnastjórn Snjallræðis
Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um að standa sameiginlega að verkefnastjórn Snjallræðis, háskólahraðals fyrir samfélagslega nýsköpun.
Snjallræði hefur frá stofnun árið 2018 verið leiðandi vettvangur fyrir þróun lausna sem stuðla að sjálfbærni og samfélagslegri þróun. Verkefnið hefur skapað tækifæri fyrir nemendur, nýútskrifaða og starfsfólk háskólanna til að vinna að raunverulegum áskorunum með aðstoð sérfræðinga og samstarfsaðila úr atvinnulífinu.
Með samstarfinu er ætlunin að Snjallræði verði styrkt sem fyrsti sameiginlegi háskólahraðall landsins og að verkefnið verði áfram í fararbroddi samfélagslegrar nýsköpunar á Íslandi. Háskólarnir munu standa sameiginlega að verkefnastjórn Snjallræðis, tryggja faglega og stefnumótandi forystu verkefnisins og að það verði áfram opið fyrir nemendur og starfsfólk háskólanna auk þess að leggja því lið með vinnuframlagi starfsfólks og stuðningi við framkvæmd hraðalsins.

Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA, Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs HR og Dr. Silja Bára Ómarsdóttir, rektor HÍ, við undirritunina.
Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs Háskólans í Reykjavík Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs Háskólans í Reykjavík og aðstoðarrektor rannsókna, nýsköpunar og atvinnulífstengsla, fagnar samstarfinu sem hann segir sérlega mikilvægt einmitt nú;
Við fögnum þessu samstarfi enda stöndum við í Háskólanum í Reykjavík framarlega í nýsköpun og rannsóknum sem koma samfélaginu til góða. Með sameiginlegum stuðningi tryggjum við að Snjallræði verði áfram leiðandi afl í því að tengja háskólana og atvinnulífið. Það er nauðsynlegt þar sem að örugg framþróun nýsköpunar á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar þróunar hefur líklega aldrei verið mikilvægari en einmitt nú.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir