Vísindavaka 2025 var haldin í Laugardalshöllinni á laugardaginn sl. Fulltrúar Háskólans í Reykjavík kynntu þar hluta af þeim fjölmörgu verkefnum og rannsóknum sem þau vinna við dagsdaglega í námi sínu og störfum.
Gestir og gangandi fengu þannig að prófa tæki og tól og var krökkum meðal annars boðið upp á að leysa úr ýmsum verkefnum.
Rakel Gunnarsdóttir, verkefnastjóri viðburða.
Rakel Gunnarsdóttir, verkefnastjóri viðburða á samskiptasviði segir daginn hafa gengið gríðarlega vel:
Mér finnst alltaf svo æðislegt að sjá hvað krakkarnir eru spenntir. Það var fullsetið hjá okkur í HR nánast allan tímann og mikill áhugi á því sem við vorum að kynna. Ég spjallaði við þónokkra krakka og það voru fleiri en einn og fleiri en tveir sem sögðust ætla að vera vísindamenn í framtíðinni. Það myndast alveg einstök stemmning á Vísindavöku og gaman að sjá hvað krakkarnir eru ófeimnir að taka þátt, spyrja og fræðast.
Hjá SKEMA var boðið upp á að hanna HR í Minecraft, sameina tónlist og forritun, læra grunn í tölvuleikjagerð og stjórna vélmenni. Nemendur í RU racing kynntu verkefni sitt í tengslum við formúluna og Systur sáu um forritunarkennslu. Hjá RU robotics var sýnt hvernig vísindin eru nýtt við hönnun vélmenna og frostbyte sýndi gestum hve auðvelt það er að hakka sig inn í heimili og hvernig megi bregðast við því.
Þá leyfðu fulltrúar íþróttafræðideildar gestum að prófa mælingarbúnað sem mældi hversu hátt fólk gat stökkið og hversu fast það gæti gripið.
Aðsókn á Vísindavöku var aðeins meiri en í fyrra eða á bilinu 6.500-7.000 gestir á öllum aldri.