Leiðbeinandi viðmið um notkun gervigreindar í námi og kennslu fyrir kennara og nemendur HR
Upplýsingar til kennara og nemenda
Gervigreindarverkfæri, á borð við ChatGPT, Copilot, Gemini o.fl. geta reynst gagnleg fyrir bæði kennara og nemendur. Til þess að gervigreindarverkfæri séu notuð á skynsamlegan hátt og komi að sem mestu gagni er mikilvægt átta sig á eðli þeirra, kostum og göllum. Háskólinn í Reykjavík leggur ríka áherslu á að efla gagnrýna hugsun nemenda, en gagnrýnin hugsun er lykilatriði þegar kemur að ábyrgri notkun gervigreindar í námi. Nemendur bera alltaf ábyrgð á eigin verkefnum og þurfa að vera tilbúnir að svara fyrir, t.d. ef útkoma gervigreindar er röng eða hlutdræg. Það er því mikilvægt að yfirfara og gagnrýna allt sem kemur frá gervigreindinni, ásamt því að greina mörkin á milli stuðningsefnis og sjálfstæðra vinnubragða.
Mælt er með því að fylgja eftirfarandi viðmiðum um notkun gervigreindar í námi og kennslu. Það er á ábyrgð bæði kennara og nemenda að kynna sér þær reglur og viðmið sem eru í gildi bæði í HR og innan deilda.
Hvað er leyfilegt?
Undirbúningur námsmats og kennslu
Kennarar ættu að:
- Endurhugsa kennsluaðferðir og námsmat með hliðsjón af gervigreind.
- Skoða námsmatsaðferðir sem reynast árangursríkar þegar kemur að gervigreind, t.d. munnleg próf, varnir o.s.frv.
- Hafa í huga hversu mikill hluti af námsmati telst öruggt / óöruggt.
- Dæmi um öruggt námsmat: Munnleg próf, próf í læstu prófakerfi og skrifleg próf í HR. Dæmi um óöruggt námsmat: Heimapróf, próf í Canvas og staðlaðar ritgerðir.
- Nýta sér aðstoð frá verkefnastjóra gervigreindar hjá kennsluþróun.
Kennurum stendur til boða að fara yfir með stjórnendum námsleiða um hvernig gervigreind getur nýst í námi og kennslu innan deildarinnar.
Dæmatímakennarar (TA) eiga að fylgja fyrirmælum kennara námskeiðs um leyfilega notkun gervigreindar.
Hvað er óheimilt?
Óheimil notkun gervigreindar
Nemendum ber skylda til að fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar í hvívetna. Ef nemandi notar gervigreind þá verður hann að geta þess. Óheimil notkun gervigreindarverkfæra eða notkun sem er í ósamræmi við fyrirmæli kennara telst brot á reglum um heilindi í verkefnavinnu, sem gilda innan Háskólans í Reykjavík.
Grunur um misferli:
Ef grunur vaknar um að nemandi hafi nýtt gervigreind með óréttmætum hætti, án heimildar frá kennara og/eða án þess að geta um notkunina, gilda sömu reglur og viðurlög og um annars konar akademískt misferli.
- Kennari getur kallað eftir samtali, vörnum eða munnlegum prófum til að sannreyna að nemandinn hafi unnið verkið sjálfur. Þó er mikilvægt að kennari áskilji sér rétt til slíks í upphafi annar, t.d. í námskeiðsáætlunum svo það liggi skýrt fyrir gagnvart nemendum.
- Ef brot er talið alvarlegt skal vísa því máli í formlegt ferli samkvæmt reglum HR.
Persónuvernd og trúnaður
Vakin er athygli nemenda á því að öllum upplýsingum sem deilt er með gervigreind er safnað saman í gagnagrunn og geta verið notuð til að þjálfa líkön þeirra. Kennurum er af þeim sökum óheimilt að færa persónugreinanlegar upplýsingar eða viðkvæmar trúnaðarupplýsingar inn í gervigreindarverkfæri.
Áreiðanleiki gervigreindar og villandi niðurstöður
Gervigreindarverkfæri spá fyrir svörum hverju sinni en vita aldrei hvort þau eru rétt. Þó svörin kunni oftar en ekki að reynast góð, þá eru alltaf töluverðar líkur á að þau séu röng. Því skal varast að treysta þeim og mikilvægt að nemendur og kennarar sannreyni upplýsingar jafnóðum. Forrit eins og Turnitin geta gefið vísbendingar um hvort að texti sé búinn til af gervigreind en þó er ekkert forrit fært um að sannreyna það. Þau eru því ekki áreiðanleg til þess og alltaf betra að ræða við nemendur og/eða að stuðla að því að þeir verji verkefni sín í auknum mæli.
Verkferill
Fyrir kennara
- Í námskeiðsáætlun skal tekið skýrt fram:
- Hvort notkun gervigreindar sé heimil
- Í hvaða tilgangi og hvernig
- Hvernig skila eigi verkefnum þar sem notkun gervigreindar er heimil (t.d. lýsingu, skjáskotum, heimildaskrá)
Lokanámsmat
- Gervigreindarverkfæri eru almennt bönnuð í lokaprófum, nema annað sé tekið fram í námskeiðsáætlun.
- Mælt er með því að nýta læst umhverfi (e. lockdown browser) við stafræna próftöku þegar við á.
Kennurum er óheimilt að nota gervigreind sem ekki er hýst í lokuðu umhverfi við yfirferð og einkunnagjöf á lokanámsmati.
Ábyrg notkun og fræðsla
- Kennarar gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að hvetja nemendur til að nota gervigreind á ábyrgan hátt.
- Mælt er með að ræða í upphafi annar:
- Kosti og galla gervigreindar
- Væntingar til sjálfstæðrar vinnu
- Gagnrýna hugsun og heimildaskráningu
Kennarar og nemendur skulu hafa í huga að hluti af ábyrgri notkun gervigreindar er að lágmarka orkunotkun. Þá skal forðast orkufrekar aðgerðir, svo sem mynd- eða myndbandsgerð, nema tilefni sé til og það teljist mikilvægur hluti af námi og kennslu.
Samantekt
Kennarar eru hvattir til að nýta gervigreind á skynsaman og ábyrgan hátt. Með þessum viðmiðum er ætlast til þess að kennarar geti:
- Áttað sig á því hvenær leyfilegt er að nota gervigreind og hvenær ekki
- Mótað skýra stefnu er varðar notkun á gervigreind í sínum námskeiðum
- Frætt nemendur um ábyrga notkun á gervigreind
- Stuðlað að akademískum heilindum
Nemendur geta stuðst við gervigreind í náminu svo framarlega sem það sé gert með leyfi kennara og sér til aðstoðar, frekar en til að gera vinnuna fyrir sig. Þessi viðmið eiga að gera það að verkum að nemendur:
- Noti gervigreind af ábyrgð og með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi
- Átti sig á eðli gervigreindar og fari gætilega með þau svör sem hún gefur hverju sinni
- Fylgi fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar í hvívetna. Kennari setur reglur um notkun fyrir sitt námskeið
- Sinni námi sínu af heilindum og með því markmiði að efla eigin getu, þekkingu og hæfni
Gervigreind er orðin hluti af daglegu skólastarfi og mikilvægt að nemendur og kennarar þekki bæði kosti og takmörk gervigreindar. Með því að nota hana á gagnrýninn og ábyrgan hátt má byggja upp námsumhverfi sem er sanngjarnt, sveigjanlegt og traust.
Samþykkt af framkvæmdaráði 14.nóvember, 2025
Endurskoðað af kennsluþróun maí, 2026
- Almennar námsreglur - Nám og námsmat
- Námsframvindureglur í BA/BSc námi
- Próf - Reglur
- Mat á fyrra námi
- Skipt um braut
- Siðareglur HR
- Reglur um verkefnavinnu
- Reglur um lokaverkefni
- Reglur fyrir meistarnám
- Reglur fyrir doktorsnám
- Reglur fyrir doktorsnám - eldri reglur
- Framvindureglur Háskólagrunns HR
- Reglur um skólagjöld
- Reglur um tölvunotkun hjá HR
- Lögvernduð starfsheiti
- Úthlutunarreglur fyrir stúdentaíbúðir HR