26. nóvember 2025
Vel heppnuð heimsókn samstarfsfyrirtækja HR til MIT
26. nóvember 2025
Vel heppnuð heimsókn samstarfsfyrirtækja HR til MIT
Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs og aðstoðarrektor vísinda, nýsköpunar og atvinnulífstengsla Háskólans í Reykjavík og Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá HR heimsóttu MIT (Massachusetts Institute of Technology) í Boston í Bandaríkjunum nú í nóvember. Með í ferð voru Dr. Freyja Björk Dagbjartsdóttir, nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar, Dr. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóra RARIK og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK Icelandic Startups.
Landsvirkjun, Rarik og KLAK Icelandic Startups eru aðilar að samstarfssamningi milli íslensks atvinnulífs og MIT.
HR er aðili að MIT ILP (Industrial Liaison Program) en tengsl HR og MIT ná langt aftur. Á grundvelli þessa samstarfs hefur HR heimild til að bjóða völdum íslenskum fyrirtækjum aukaaðild að MIT ILP og kallast sú aðild lcelandic Innovation Partners (IIP) og gegnir HR þar leiðandi hlutverki. Markmið samstarfsins er að sameina fyrirtæki og stofnanir með áhuga á langtíma stefnumótun og samstarfi við MIT og innbyrðis. José Ramos, Program Director hjá MIT ILP leiðir samstarfið af hálfu MIT.

Hópurinn sótti rannsókna- og þróunarráðstefnu sem haldin var á vegum MIT og er einn stærsti viðburður ársins við háskólann. Yfirskrift viðburðarins í ár var [Em]Powering the Future: Transforming Ideas into Reality.
Samstarfið við MIT er okkur mjög þýðingarmikið og ánægjulegt að skoða aðstöðuna hjá þeim og hitta þeirra færustu vísindamenn á sviði AI, nýsköpunar og sjálfbærni. Þá var afar áhugavert og fræðandi að sækja þessa ráðstefnu þar sem viðfangsefni hennar í ár tónar vel við okkar áherslu í HR á nýsköpunarstarf.
Segir Dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti tæknisviðs og aðstoðarrektor vísinda, nýsköpunar og atvinnulífstengsla Háskólans í Reykjavík.
Samhliða ráðstefnunni átti hópurinn fundi með fræðimönnum innan MIT ILP og fulltrúa sprotafyrirtækja sem sprottið hafa upp úr MIT nýsköpunarvistkerfinu. Fundirnir voru skipulagðir sérstaklega eftir áhugasviði og þeim áherslum sem þátttakendur óskuðu eftir.

Dagskrá hópsins lauk með gagnvirkri vinnustofu sem bar heitið Making Feedback Work for You: From Awkward to Actionable og leidd var af þeim Jayne Tan, sem kennir og sérhæfir sig í leiðtogaþjálfun, og Melissu Webster, lektor hjá Sloan School of Management við MIT. Að því loknu fór hópurinn í skoðunarferð um MIT svæðið og helstu byggingar þess.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir