21. febrúar 2025
Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík greina frá nýrri mögulegri meðferð við ADHD
21. febrúar 2025
Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík greina frá nýrri mögulegri meðferð við ADHD
Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík hafa greint frá niðurstöðum rannsókna sem benda til þess að hugsanlega megi þróa nýja lyfjameðferð við ADHD úr grunni amlodipíns, sem er algengt blóðþrýstingslyf. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar eru í Neuropsychopharmacology, gefa sterkar vísbendingar fyrir því að markviss stýring á kalsíumgöngum (LTCCs) geti haft meðferðargildi við ADHD. Þessi rannsókn markar mikilvægt skref í átt að bættum meðferðarmöguleikum við ADHD.
ADHD er algeng taugaþroskaröskun sem langoftast er meðhöndluð með lyfjagjöf. Örvandi lyf eins og metýlfenídat eru algengust og árangursrík fyrir marga sjúklinga, en geta eins og flest lyf valdið aukaverkunum. Í samstarfi við alþjóðlega samstarfsaðila hafa vísindamenn við HR rannsakað aðrar meðferðarleiðir og komist að því að markviss áhrif á kalsímugöng gætu veitt öruggari og þolanlegri meðferðarkosti.

Rannsóknin sameinaði ýmsar rannsóknaraðferðir, þar á meðal hegðunarprófanir á erfðabreyttum dýramódelum, hermanir og raunveruleg gögn frá sjúklingum. Helstu niðurstöður eru:
- Hegðunarbreytingar í ADHD dýralíkönum – amlodipín dró úr ofvirkni og hvatvísi í fiskalíkani af ADHD og úr ofvirkni í nagdýralíkani af ADHD.
- Gegndræpi um heilablóðþröskuldinn – mælingar staðfestu að amlodipín kemst yfir heilablóðþröskuldinn og hefur áhrif á taugavirkni.
- Erfðafræðileg tenging við ADHD – Mendelsk slembun (e. mendelian randomization) leiddi í ljós tengsl ADHD við kalsíumgöng í heila.
- Gögn úr mannerfðafræðigagnagrunnum styðja áhrif amlodípins á ADHD einkenni –einstaklingar með háa ADHD-efðaáhættu sem var ávísað amlodipín sýndu minni ADHD-tengd einkenni.

Dr. Karl Karlsson, prófessor í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík og meðhöfundur rannsóknarinnar, leggur áherslu á mikilvægi niðurstaðnanna.
„Þessi rannsókn er stórt skref í átt að þróun nýrra meðferða við ADHD. Niðurstöður okkar benda til þess að stjórn kalsíumganga, sem amlodipín hefur áhrif á, gætu verið grundvöllur fyrir nýjum, öruggari og áhrifaríkari lyfjum gegn ADHD. Með því að nýta þessa innsýn getum við hraðað þróun lyfja sem gætu hjálpað þeim eru greindir með ADHD. Niðurstöðurnar sýna einnig fram á mikilvægi íslenskra rannsóknarinnviða, hvort sem horft er til NSA, skattaívilnunar vegna rannsókna og þróunarkostnaður eða Tækniþróunarsjóðs. Þessi tæki gera okkur kleift að byggja upp rannsóknir af þeim gæðum og krafti sem nauðsyn er til þess að sækja fram,“ segir Karl.
Með þessar niðurstöður að leiðarljósi, verður haldið áfram að þróa lyfjaform á grunni amlodipíns með það að leiðarljósi að hefja prófanir í mönnum sem fljótt og verða má.
Hlekkur á greinina: https://www.nature.com/articles/s41386-025-02062-x
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir