Starfsnám í utanríkisþjónustunni
Utanríkisráðuneytið auglýsir starfsnám ætlað fólki sem hefur lokið BA-/BS-gráðu og stundar meistaranám eða hefur nýlokið slíku námi í grein sem tengist málefnasviði utanríkisþjónustunnar.
Markmiðið er að gefa ungu fólki sem er að hefja starfsferil sinn færi á að kynnast störfum utanríkisþjónustunnar.
Að þessu sinni er auglýst er eftir starfsnemum sem munu starfa á starfsstöð utanríkisþjónustunnar hjá fastanefnd Íslands í Genf frá 1. janúar - 31. desember 2026 og sendiráði Íslands í Berlín frá 1. janúar - 30. júní 2026.
Helstu verkefni og ábyrgð
Starfsnemar aðstoða starfsfólk sendiskrifstofa við margvísleg málefni utanríkisþjónustunnar.
Helsta verkefni starfsnema í fastanefndinni í Genf er að styðja við setu Íslands í mannréttindaráðinu, sinna fundarsetu, greina gögn, aðstoða við talpunkta og ræðuskrif sem og styðja við þátttöku annarra starfsmanna í samningaviðræðum um mannréttindamál. Þá mun starfsnemi fá að kynnast öðrum verkefnum fastanefndarinnar svo sem á sviði mannúðarmála, alþjóðlegra viðskiptamála og EFTA eftir því sem við verður komið.
Verkefni starfsnema í Berlín yrðu meðal annars aðstoð við viðskipta- og menningarverkefni, greining á stjórnmálaþróun og fundasókn, aðstoð við undirbúning og skipulag dagskrár vegna 75 ára afmælisárs diplómatískra samskipta Íslands og Þýskalands árið 2027, uppfærsla á og umsjón með landaskýrslum fyrir Þýskaland og Tékkland, auk þátttöku í starfi norrænna starfshópa á sendiráðssvæðinu og aðstoð við samfélagsmiðla sendiráðsins.
Hæfniskröfur
- BA-, BS-, eða B.Ed.- gráða eða sambærileg menntun í grein sem tengist málefnasviði utanríkisþjónustunnar og þeim málefnum sem unnið er að á tilgreindum sendiskrifstofum.
- Þjónustulund, skipulagshæfni, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð.
- Færni í mannlegum samskiptum.
- Mjög gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
- Góð greiningarfærni og geta til að vinna með texta.
- Góð tæknikunnátta og færni í notkun samfélagsmiðla er skilyrði.
- Mjög góð aðlögunarhæfni.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá (hámark 1 bls.) ásamt kynningarbréfi (hámark 1 bls.) á íslensku og einkunnir úr háskólanámi. Umsóknir þar sem kynningarbréf eða ferilskrá eða hvort tveggja vantar eða eru á öðru tungumáli en íslensku verða ekki teknar til greina. Við ákvörðun um boðun í starfsviðtal verður litið sérstaklega til gæða umsóknargagna. Við ákvörðun um ráðningu verður, auk framangreindra hæfnikrafna, tekið mið af frammistöðu í starfsviðtali og umsagna sem aflað er.
Starfsnám hjá utanríkisráðuneytinu er launað og þiggja starfsnemar laun skv. kjarasamningi sem ríkið hefur gert við viðkomandi stéttarfélög. Um er að ræða tímabundna ráðningu. Ráðuneytið leggur áherslu á jafnrétti og hvetur öll til að sækja um. Athygli er vakin á að umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfresti lýkur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
Hlekk á skipulag ráðuneytisins má finna hér: Stjórnarráðið | Skipulag
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 27.10.2025
Nánari upplýsingar veitir Karlína Rós Magnúsdóttir
Tölvupóstur: karlina.ros.magnusdottir@utn.is

- Vefsíða fyrirtækis: https://www.island.is
- Umsóknarfrestur (til og með): 27.10.2025