Umhverfissálfræði og þrívíddartækni
Hvað læri ég
Í náminu er sjónum beint að upplifun og atferli fólks í umhverfi sínu. Farið er yfir samspil fólks og umhverfis, áhrif náttúru og byggðs umhverfis, bæði utandyra sem innandyra á hugræna starfsemi, andlega líðan og lífeðlisfræðilega ferla. Umræðan er tvinnuð saman við sjálfbæra þróun, heilsu fólks og aðlögun að umhverfinu. Rætt verður um uppbyggingu rannsókna og vísindalega nálgun, aðferðafræði og tölfræði, öflun gagna og úrvinnslu. Farið verður yfir hagnýtingu þrívíddartækni, sýndarupplifunar og sýndarveruleika til rannsókna á áhrifum umhverfis á fólk. Á öllum fjórum önnum verða verkefni sem nemendur vinna að í hópum og lögð verður áhersla á hagnýtt gildi verkefna.
Þverfagleg nálgun sálfræði-, tölvunarfræði- og iðn- og tæknifræðideildar
Námið er þverfaglegt viðbótarnám á meistarastigi og er opið öllum sem lokið hafa BA, BS eða sambærilegu námi. Námið hentar sérstaklega vel þeim aðilum sem koma með einhverjum hætti að gerð og/eða ákvörðunum tengdum hönnun, skipulagi og uppbyggingu umhverfis. Má þar nefna sem dæmi arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga, verkfræðinga, tæknifræðinga, pólitíska fulltrúa sveitarfélaga, sérfræðinga innan sveitarfélaganna, fjárfesta og verktaka.
Umhverfissálfræði er sú grein innan sálfræðinnar sem beinir sjónum sínum að samspili fólks og umhverfis, hvernig fólk hefur áhrif á umhverfið og hvernig umhverfið hefur áhrif á fólk. Aukin þekking og skilningur á umhverfissálfræði er mikilvægur þáttur í hönnun, mótun, skipulagningu og uppbyggingu heilsusamlegs og mannvæns umhverfis og er því mikilvægt innlegg í eflingu sjálfbærrar þróunar byggðs umhverfis.
Til að skilja betur oft á tíðum flókið samspil fólks og umhverfis er nauðsynlegt að kanna, skoða og rannsaka viðfangsefni frá ólíkum sjónarhornum. Námið leggur því mikla áherslu á þverfaglega nálgun, þar sem útgangspunkturinn er umhverfissálfræði, en aðrar greinar hjálpa til við að skilja viðfangsefnið betur og byggja upp víðfemari þekkingu og nálgun.
HR leggur áherslu á þverfaglegt nám og er þessi námsbraut samvinnuverkefni sálfræðideildar, tölvunarfræðideildar og iðn- og tæknifræðideildar HR, þar sem útgangspunkturinn er sálfræðilegt samspil fólks og umhverfis, kannað með hjálp nýjustu tækni á sviði upplifunar og gagnaöflunar.
Nám á meistarastigi í umhverfissálfræði hefur verið stundað víða um heim um nokkurt skeið, jafnvel í nokkra áratugi og er enn frekar að ryðja sér til rúms. Þá hefur áhersla á tölvugrafík og sýndarveruleika verið í boði við margar helstu menntastofnanir heims á tæknisviðinu, og eftirspurn eftir slíku námi farið ört vaxandi. En sú þverfaglega og hagnýta nálgun sem boðið er upp í þessu námi hér er ný á af nálinni á heimsvísu, þótt byggt sé á sterkum grunni hvers fags fyrir sig.
Heilsusamlegt, mannvænt og sjálfbært umhverfi er krafa 21. aldarinnar
Rannsóknir í umhverfissálfræði hafa sýnt fram á áhrif umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks. Hönnun, mótun og skipulag umhverfis getur því lagt grunninn að auknum lífsgæðum, betri heilsu og heilbrigðari lífsháttum fólks. Með aukinni þekkingu á samspili fólks og umhverfis eru samfélög framtíðarinnar betur í stakk búin til að mæta auknum kröfum við uppbyggingu þéttbýlis í þágu bættrar heilsu og líðanar.

Vegna sinnar breiðu skírskotunar hefur umhverfissálfræðin marga snertifleti og getur tvinnað saman ólíkar greinar. Þess vegna hentar umhverfissálfræðin svo vel sem kjarni þverfaglegs samstarfs ólíkra greina. Sjónarmið og samþætting þeirra gegnir svo aftur lykilhlutverki í sjálfbærni og sjálfbærri þróun til framtíðar.
Í þessu hagnýta viðbótarnámi á meistarastigi öðlast nemendur þekkingu á sálfræðilegu samspili fólks og umhverfis og aukinn skilning á mikilvægi vísindalegrar nálgunar og aðferðafræði á þessu sviði. Ennfremur öðlast nemendur reynslu og færni í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og áskorarnir í tengslum við hönnun og skipulag umhverfis, sem og hvernig umhverfissálfræði getur verið samþætt inn í skipulags- og hönnunarverkefni í vinnslu, í því skyni að mæta sálfræðilegum kröfum og þörfum.
Þá læra nemendur að beita nýjustu tölvutækni við framsetningu og mælingar á upplifun fólks af umhverfi áður en það er byggt.
Aukin gæði umhverfis í þágu fólksins
Í þessu hagnýta diplómanámi öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að takast á við sálfræðileg viðfangsefni og áskorarnir í tengslum við hönnun og skipulag umhverfis. Eins hvernig umhverfissálfræði getur verið samþætt inn í skipulags- og hönnunarverkefni í vinnslu, í því skyni að mæta sálfræðilegum kröfum og þörfum.
Hvernig læri ég?
Kennslu er skipt í fimm lotur yfir önnina og í fjórum þeirra er einblínt á að byggja upp fræðilegan grunn. Á milli lotanna vinna nemendur hagnýt verkefni þar sem fræðin eru sett í samfélagslegt samhengi. Í fimmtu lotunni fá nemendur aukið svigrúm til að sinna þessum verklega þætti í formi lokaverkefnis með stuðningi leiðbeinenda.
Að námi loknu
Nemendur búa yfir aukinni þekkingu og skilningi á áhrifum umhverfis á fólk, vísindalegri nálgun og nýjustu leiðum til að afla upplýsinga og meta þær. Slíkt skapar forsendur fyrir betra læsi á viðfangsefnið og upplýstari ákvörðunartöku, sem þá aftur skilar sér í markvissari og mannvænni uppbyggingu umhverfis.
Tækifærin í þrívíddartækni
Öflug þrívíddartækni skapar möguleika til að teikna upp hugmyndir að umhverfi í þróun, að stíga inn í umhverfið og upplifa það eins og um raunverulegt umhverfi sé að ræða.
Það að fá að upplifa að ganga um götu í framtíðarskipulagi, eða setjast við glugga á nýjum vinnustað í mótun, eykur ekki aðeins skilning fólks á hönnunarhugmyndum sem liggja fyrir, heldur má nýta slíka framsetningu til að safna sálfræðilegum gögnum um áhrif umhverfisins, áður en til framkvæmda kemur. Tækifærin sem felast í þessu samspili sálfræði og tækni eru gríðarleg, og þróunin hröð.
Aukin vitund, skilningur og færni á sviði umhverfissálfræði
Nemendur eiga að námi loknu að hafa öðlast þekkingu og skilning á sálfræðilegum hugtökum er tengjast samspili fólks og umhverfis. Ennfremur eiga þeir að hafa færni til að setja hugtökin í stærra samhengi og nýta s.s. í tengslum við uppbyggingu umhverfis og áhrifa þess. Eins að vera betur í stakk búin að takast á við áskoranir dagsins í dag sem og áskoranir framtíðarinnar.
Nemendur öðlast aukna vitund um mikilvægi sálfræðilegra þátta í hönnun og skipulagi og skilja tilgang aðferða og verkfæra sem sem nýtt eru með það að markmiði að kortleggja samspil fólks og umhverfis. Þá öðlast þeir aukna færni í hagnýtingu nýjustu upplifunartækni, s.s. sýndarveruleika, í verkferlum.
Skipulag náms
- Gráða: Viðbótarnám á meistarastigi
- Inntökuskilyrði: Umsækjendur skulu hafa lokið grunnnámi í háskóla (BA, BS eða sambærilegu prófi)
- Einingar: 60 ECTS einingar Einingafjöldi á önn: 15 ECTS einingar
- Lengd náms: Tvö ár, 4 annir
- Kennslufyrirkomulag: Námið er kennt 5 lotum (ein lota/mánuð - frá kl. 16 á fimmtudegi - síðdegis á laugardegi) í HR. Auk þess verður fjarkennsla einn virkan dag í mánuði milli kl. 17 og 19.
Í náminu er meginþráðurinn sá að nemendur vinna að fjórum verkefnum, einu verkefni á hverri önn. Í námskeiðunum er lögð áhersla á kynningu og hagnýtingu tiltekinna grunnþátta sem nemendur nota til að byggja upp hvert lokaverkefni.
Á 1. önn er lögð áhersla á kynningu á sálfræðilegum hugtökum og tengsl þeirra við heilsu, mat og niðurstöður á upplifun fólks á náttúru, grænum svæðum og bláum svæðum. Þá verður fjallað um framsetningu umhverfis og vísindalegar aðferðir í tengslum við rannsóknir og gagnaöflun.
Á 2. önn er lögð áhersla á samspil fólks og byggðs umhverfis, og samráð milli hópa og á áhrifaríka og kerfisbundna framsetningu umhverfis, m.a. með þrívíddartækni.
Á 3. önn er lögð áhersla á nánari yfirferð á sálfræðilegum hugtökum, tölfræði og greiningar, lífeðlisfræðilegar mælingar á fólki á umhverfi sínu, uppbyggilegt samráð og skilningur sem og gerð og framsetning efnis í gagnvirkum sýndarveruleika.
Á 4. önn er lögð áhersla á umhverfi innandyra, tölfræði og greiningar, lífeðlisfræðilegar mælingar á fólki á umhverfi sínu, uppbyggilegt samráð og gagnkvæmur skilningur.
Aðstaða
Nemendur í umhverfissálfræði og þrívíddartækni njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna og sérfræðinga á fagsviðinu, stundakennara og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Lögð er áhersla á góð samskipti nemenda og kennara, faglega kennslu í smærri hópum og einstaklingsmiðaða leiðsögn.
Kennarar
Stundarkennarar
Inntökuskilyrði
Menntun
Inntökuskilyrði í námið er BA, BSc eða sambærilegt próf.
Umsókn og fylgigögn
Næst verður tekið inn í námið haust 2026
Umsækjendur fylla út rafræna umsókn og eftirtöldum fylgigögnum skal skila inn í umsóknarkerfið:
- Staðfest afrit af prófskírteini og námsferilsyfirliti.
- Yfirlit yfir náms- og starfsferil (ferilskrá á ensku eða íslensku).
Af hverju umhverfissálfræði og þrívíddartækni í HR?
- Tækifæri í þrívíddartækni
- Eftirsótt sérfræðiþekking fyrir framtíðina.
- Fáðu dýpri þekkingu á því sviði sem þú hefur mestan áhuga á.
- Fáðu reynslu í rannsóknum og þjálfun í að hugsa út fyrir boxið og leita nýrrar þekkingar - út starfsferilinn.
- Taktu þátt í raunverulegum verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið.
- Njóttu betri starfsmöguleika, hvar sem er í heiminum.
- Nýttu valnámskeið til að móta námið að þínu áhugasviði.
- Læra að beita nýjustu tölvutækni við framsetningu og mælingum á upplifun fólks á umhverfinu áður en það er byggt.
- Þverfagleg nálgun sálfræðideildar, tölvunarfræðideildar og iðn- og tæknifræðideildar