Gervigreind og -máltækni
Hvað læri ég?
Gervigreind er rannsóknar- og þróunarsvið sem snýst um að þróa aðferðir til að leysa verkefni sem yfirleitt krefjast mannlegrar greindar. Máltækni miðar að því að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu.
Í þessu námi læra nemendur að beita gervigreind, þ.m.t. vélnámi og djúpnámi, til að leysa ýmiss konar verkefni og þróa lausnir á sviði máltækni. Dæmi um verkefni sem nemendur geta unnið að eru talgreining, talgerving, sýndarverur, spjallmenni, vélþýðingar, málrýni, spurningasvörun, mörkun, þáttun og upplýsingaútdráttur. Í náminu er byggð upp þekking í gervigreind sem jafnframt getur nýst á öðrum sviðum en í máltækni.
Hvernig læri ég?
Í framhaldsnámi afla nemendur sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar. Námið er kennt á ensku og eru nemendur í nánum tengslum við kennara.
Forkröfur
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunngráðu (BSc) í tölvunarfræði, verkfræði eða tengdum greinum. Nemendum með grunngráðu í greinum eins og stærðfræði, tölfræði eða eðlisfræði og hafa grunnfærni í forritun ætti að vegna vel í náminu.
Mál- og raddtæknistofa / Language and Voice Lab (LVL)
LVL er rannsóknarstofa innan Gervigreindarseturs HR. Nemendur í meistaranámi í gervigreind og máltækni vinna yfirleitt meistaraverkefni sín undir handleiðslu vísindamanna innan LVL. Mörg dæmi eru um að meistaranemar hafi skrifað greinar með leiðbeinendum sínum og birt þær á ritrýndum ráðstefnum.
Samstarf HR og HÍ
Námið er sameiginlegt nám Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskóla Íslands (HÍ). Í HR er gert ráð fyrir að nemendur hafi BS-próf í tölvunarfræði eða skyldum greinum en í HÍ er námið einnig sniðið að nemendum með BA-próf í hugvísindagreinum (almennum málvísindum, íslensku og erlendum tungumálum). Þeir sem hafa lokið háskólaprófi í öðrum greinum geta einnig sótt um inngöngu og er þá undirstaða þeirra metin sérstaklega.
Nemendur eru skráðir í MS í gervigreind og máltækni í HR eða í MA í máltækni í HÍ en geta tekið námskeið í báðum skólunum. Nemandi útskrifast frá þeim skóla sem hann er skráður í og vinnur að jafnaði meistaraverkefni undir handleiðslu kennara í viðkomandi skóla.
Að námi loknu
Út í atvinnulífið
Sérfræðingar á sviði gervigreindar og máltækni láta að sér kveða í sífellt meiri mæli í atvinnulífinu. Algengir vinnustaðir fyrir sérfræðinga á þessu sviði eru upplýsingatæknifyrirtæki og fyrirtæki sem sem þjóna viðskiptavinum í gegnum skrifað og talað mál.
Sífellt viðameiri hluti af starfsemi stærstu tæknifyrirtækja heims, eins og Apple, Amazon, Google, Meta og Microsoft, snýst um að þróa lausnir til að vinna með tal og texta. Sérhæfing í gervigreind og máltækni opnar möguleika til að starfa á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi því eftirspurn eftir starfskröftum með þessa þekkingu er alltaf að aukast.
Meistaranám í gervigreind og máltækni er jafnframt góður undirbúningur fyrir doktorsnám á þessu sviði.
Með fjölbreyttum verkefnum hef ég fundið mitt áhugasvið og um leið fengið innsýn í risastóran heim tölvunarfræðinnar. Meðal þeirra má nefna að setja upp gervigreind sem lærir að semja tónlist, framkvæma svefnrannsókn á sjálfri mér og spá fyrir um niðurstöður í Eurovision með Big Data.
Skipulag náms
Hægt er að velja rannsóknamiðað nám eða námskeiðsmiðað nám. Þegar rannsóknarmiðað nám er valið er meistaraverkefni 60 einingar en í námskeiðsmiðuðu námi er meistaraverkefni 30 einingar.
Námið er skipulagt í samstarfi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og býðst nemendum að taka þar námskeið.
Um er að ræða tveggja ára, þverfaglegt, 120 eininga nám. Nemendur taka a.m.k. 2/3 af einingum í námskeiðum á meistarastigi í tölvunarfræði, verkfræði og í námskeiðum við Háskóla Íslands. Samsetning eininga er sveigjanleg og fer eftir bakgrunni viðkomandi nemanda.
Hér fyrir neðan má sjá dæmi um námsskipulag. Sum námskeiðanna eru kennd í HR en önnur í HÍ. Meistaranámskeið í HR eru yfirleitt 8 einingar en grunnnámskeið eru 6 einingar.
Skylda er að taka áfangann T- 622-ARTI Gervigreind ef nemandi hefur ekki lokið áfanganum í BSc námi sínu. Áfanginn er kenndur á vorönn
Aðstaðan
Þjónusta og góður aðbúnaður
Kennsla fer fram á netinu og í háskólabyggingu HR.
Verkleg kennsla á margvíslegum vettvangi
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar.
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá frekari upplýsingar um aðstöðuna í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Kennarar
Af hverju tölvunarfræði í HR?
- Eftirsótt sérfræðiþekking fyrir framtíðina.
- Fáðu dýpri þekkingu á því sviði sem þú hefur mestan áhuga á.
- Fáðu reynslu í rannsóknum og þjálfun í að hugsa út fyrir boxið og leita nýrrar þekkingar - út starfsferilinn.
- Taktu þátt í raunverulegum vísindaverkefnum sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið.
- Njóttu betri starfsmöguleika, hvar sem er í heiminum.
- Nýttu valnámskeið til að móta námið að þínu áhugasviði.
- Fáðu tækifæri til að vinna með mörgum af afkastamestu fræðimönnunum í tölvunarfræði á Íslandi.*
- Góður undirbúningur doktorsnám.