Námið
Rannsóknir
HR
Verkfræðideild

Hátækni-
verkfræði

Námstími
2 ár
Einingar
120 ECTS
Prófgráða
MSc
Lögverndað starfsheiti
Verkfræðingur
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei

Hvað læri ég?

Meistaranám í hátækniverkfræði er framhald BSc-náms í hátækniverkfræði. 

Gert er ráð fyrir að nemandi hafi grunngráðu (BSc) í rafmagns- eða hátækniverkfræði. Hafi nemandi annan bakgrunn getur viðkomandi þurft að bæta við námskeiðum úr grunnnámi. Í slíkum tilvikum er ætlast til að nemandi klári þessi námskeið á fyrsta námsári sínu.   

Sjálfvirk tæki og róbotar er tækni sem er notuð í iðnað og framleiðslu en jafnframt í alls kyns búnað sem við notum í daglegu lífi eins og bifreiðar, heimilistæki, gervilíffæri, stoðtæki og leikföng. Í hátækniverkfræði sameina nemendur viðfangsefni rafmagnsverkfræði og vélaverkfræði og læra hönnun flókins tæknibúnaðar. 

Verkfræði er í heildina fimm ára nám. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.    

Hvernig læri ég?

Í framhaldsnámi afla nemendur sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar. 

Meistaraverkefni 

Valnámskeiðum er ætlað að auka skilning og undirbúa rannsóknarefni nemandans. Meistaraverkefni er 30 einingar, unnið á lokaönn. Hægt er að sækja um að vinna 60 eininga meistaraverkefni og taka þá samsvarandi færri valnámskeið. 

Meistaranemar geta sótt um að taka starfsnám á vorönn. Starfsnámið getur verið allt að 12 ECTS.  

Starfsnám

Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu. Verkfræðideild gengur úr skugga um að nemendur sem fara í starfsnám vinni verkefni sem eru krefjandi, áhugaverð og á þeirra áhugasviði.  

Starfsnámið hefur mælst mjög vel fyrir hjá nemendum og mörg meistaraverkefni hafa orðið til út frá verkefnum í starfsnámi.  

Skyldunámskeið fyrir alla:  

Gagnanám og vitvélar 

Eitt skyldunámskeið er fyrir alla meistaranema í verkfræði, sama á hvaða námsleið þeir eru: Gagnanám og vitvélar (e. data mining and machine learning). Þar eru viðfangsefnin meðal annarra tauganet, ákvarðanatré og mynsturgreining.  

Það er mat verkfræðideildar HR að kunnátta á þessu sviði sé nauðsynleg fyrir verkfræðinga dagsins í dag og ekki síst verkfræðinga framtíðarinnar. 

Aðferðarfræði rannsókna 

Samfélagið þarfnast fólks sem getur hugsað gagnrýnt, greint flóknar aðstæður og miðlað niðurstöðum sínum á áhrifaríkan hátt. Þetta getur falið í sér mörg verkefni, þar á meðal að leita að og meta gildi vísindarita og annars konar skjala. 

Aðferðafræði rannsókna undirbýr nemendur fyrir að takast á við upplýsingaöflun, greiningu og skýrslugerð sem krafist er fyrir öll önnur námskeið. 

Skiptinám 

Að læra við háskóla í öðru landi er ævintýri, getur víkkað sjóndeildarhringinn og jafnvel staðfest fyrir nemendum hverju þeir vilja einbeita sér að í sínu starfi eftir útskrift. Nemendur í MSc námi geta sótt um skiptinám í eina eða tvær annir en  alþjóðaskrifstofan veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám. 

Aðstoðarkennsla 

Aðstoðarkennsla er auglýst sérstaklega og geta nemendur í MSc námi eða á 3. ári í BSc námi sótt um. Ýmist er um að ræða kennslu í dæmatímum ásamt yfirferð dæma, yfirferð heimaverkefna eingöngu eða aðstoð við verklegar æfingar.  Nemendur sem hafa sýnt góðan árangur í námi og hafa áhuga á að spreyta sig við aðstoðarkennslu eru hvattir til þess að sækja um.  Nánari upplýsingar hjá skrifstofu verkfræðideildar, vfd@ru.is

Að námi loknu

Sérhæfing nemenda á sviði stýritækni, iðntölvustýringa og rafeindatækni gerir þá ákjósanlega starfskrafta. Námið nýtist þeim sem vilja vinna við raf- og rafeindastýrðan vélbúnað, hanna vélhluti og sinna þróun hugbúnaðarkerfa. Styrkleiki hátækniverkfræðinga liggur í samþættingu íhluta (vélbúnaður) og upplýsingatækni (hugbúnaður). 

Starfsréttindi 

Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 einingar) grunnnámi og tveggja ára (120 einingar) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Skipulag náms

Í framhaldsnámi afla nemendur sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun eftir áhugasviði í samráði við deildina. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar.

Á 2. ári geta nemendur valið um að taka valnámskeið, fara í skiptinám eða sótt um að gera 60 ECTS eininga meistaraverkefni.

Námskeiðslýsingar eru að finna í kennsluskrá.

Haust
Gagnanám og vitvélar
T-809-DATA / 8 ECTS
Embedded System Programming
T-738-EMBE / 8 ECTS
Valnámskeið
T-800-VAL / 8 ECTS
Tölvusjón
T-869-COMP / 6 ECTS
Vor
Aðferðafræði rannsókna
T-701-REM4 / 8 ECTS
Mechatronics II
T-535-MECH / 6 ECTS
Valnámskeið
T-800-VAL / 8 ECTS
Valnámskeið
T-800-VAL / 8 ECTS

Ertu með spurningar um námið?

Námstími
2 ár
Einingar
120 ECTS
Prófgráða
MSc
Lögverndað starfsheiti
Verkfræðingur
Skiptinám mögulegt
Fjarnám mögulegt
Nei

Aðstaða

Nemendur í hátækniverkfræði hafa aðgang að vélsmiðju, orkutæknistofu og rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum aðstöðu í kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni.

Vélsmiðja

Flestir nemendur sem útskrifast frá HR með verkfræðigráðu hafa kynnst vélsmíði að einhverju marki, til að mynda unnið í rennibekk og fræsivél við að útfæra hugmyndir og hönnun sína. 

Í vélsmiðjunni eru þrír rennibekkir, tvær fræsivélar, CNC rennibekkur og fræsivél, suðutæki, laser-skurðarvél, ásamt öðrum hefðbundnum verkfærum. Nemendur hafa aðgang að vélsmiðjunni til að leysa skemmtileg og raunveruleg verkfræðileg viðfangsefni. 

Í boði eru inngangsnámskeið í vélsmíði, þar sem farið er yfir öryggismál og nemendum kennd viðeigandi handtök. 

Orkutæknistofa

Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum. 

Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknarverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. RU Racing-lið HR hefur aðsetur í stofunni.

Rafeindatæknistofa

Í stofunni er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. 

Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Þar er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. 

Mikið safn er af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir.

Kennarar

Nemendur í hátækniverkfræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. 

Af hverju meistaranám í verkfræði í HR?

  • Góður aðgangur að framúrskarandi kennurum og vísindamönnum.  
  • Virk tengsl við atvinnulífið.  
  • Meistaraverkefni oft unnin í samstarfi við fyrirtæki og jafnvel hægt að fá styrki til að vinna þau.  
  • Öflugt starfsnám sem getur verið allt að 12 ECTS. 
  • Hægt að fara í skiptinám 
  • Háskólinn í Reykjavík er meðal bestu smærri háskóla heims samkvæmt lista Times Higher Education.
  • Allt nám fer fram í Háskólanum í Reykjavík
Fara efst