29. október 2025
Brýnni þörf fyrir áhrifarík verkfæri í íslenskukennslu mætt
29. október 2025
Brýnni þörf fyrir áhrifarík verkfæri í íslenskukennslu mætt
Nýrómur, þriggja ára rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að því að búa til alhliða kerfi fyrir tölvustudda framburðarþjálfun í íslensku, hefur hafið göngu sína. Verkefnið mætir brýnni þörf í íslensku samfélagi þar sem innflytjendur eru nú yfir 18% íbúa landsins og alþjóðlegur áhugi á íslensku máli og menningu heldur áfram að vaxa.
Nýrómur byggir á framburðarþjálfunarkerfi sem var þróað í verkefninu CAPTinI á árunum 2020-2023. Nýja kerfið notar háþróaða talmálstækni og gervigreind til að meta framburð nemenda í rauntíma og veita sérsniðna endurgjöf aðlagaða að færni og þörfum hvers nemanda.
Framburður er oft ein stærsta hindrunin fyrir þá sem eru að læra íslensku. Með Nýrómi erum við að búa til verkfæri sem gerir framburðarþjálfun aðgengilega hvar og hvenær sem er, með tafarlausri og nákvæmri endurgjöf.
Segir dr. Jón Guðnason, verkefnastjóri verkefnisins hjá Háskólanum í Reykjavík.
Sérhæfing fyrir íslensku
Verkefnið leggur sérstaka áherslu á framburðarþætti sem geta reynst erfiðir fyrir erlenda nemendur, eins og sérhljóðalengd og hrynjandi, tónfall og áherslu. Stefnt er að því að kerfið verði samþætt við Icelandic Online-vettvanginn við Háskóla Íslands, gagnvirkt kennsluefni í íslensku sem öðru/erlendu máli en tæplega 300.000 manns hafa stundað nám þar frá upphafi til dagsins í dag. Þá verður framburðarkerfið gert aðgengilegt og opið þannig að þeir sem þróa hugbúnað á þessu sviði geti nýtt sér afurðir þess.
Í íslensku eru margvísleg framburðareinkenni sem þjálfa þarf sérstaklega meðal annarsmálshafa íslensku. Með því að samþætta háþróaða tækni og sannreyndar kennsluaðferðir getum við hjálpað nemendum að ná betri árangri í talmáli og hlustunarskilningi og ýtt undir aukið sjálfstraust þeirra í samskiptum.
Útskýrir dr. Kolbrún Friðriksdóttir, verkefnastjóri verkefnisins við Háskóla Íslands.
Víðtæk samvinna
Verkefnið er afrakstur samstarfs þriggja leiðandi stofnana og fyrirtækis: Háskólinn í Reykjavík leiðir verkefnið og leggur til sérfræðiþekkingu í talmálstækni, Háskóli Íslands leggur til þekkingu í málvísindum og annarsmálskennslu auk aðgangs að Icelandic Online, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kemur með þekkingu og reynslu í málvísindum og annarsmálsfræðum og Vikonnekt sér um tæknilega innleiðingu og langtímasjálfbærni.
Icelandic Online hefur reynst ómetanlegt úrræði fyrir íslenskunemendur um allan heim. Með því að bæta við háþróaðri framburðarþjálfun vonumst við til að gera vettvanginn enn öflugri og gagnlegri fyrir notendur.
Segir Kolbrún.
Ávinningur fyrir samfélagið
Vonast er til að verkefnið muni auðvelda innflytjendum að aðlagast samfélaginu með aukinni færni í íslensku, bæta samskiptahæfni starfsfólks á fjölmenningarlegum vinnustöðum og veita kennurum nútímaleg verkfæri til stuðnings nemendum.
Nýrómur er þriggja ára verkefni (2025-2028) sem styrkt er af Markáætlun í tungu og tækni með um 90 milljóna krónu framlagi. Fyrsta útgáfa kerfisins verður sett upp strax þannig að notendur geti byrjað að njóta ávinnings af verkefninu frá upphafi.
Á myndinni eru (frá vinstri til hægri):Dr. Hannes Högni Vilhjálmsson, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, Ívar Guðmundsson, rekstrarstjóri Vikonnekt, dr. Caitlin Ricther, rannsóknarsérfræðingur við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, dr. Jón Guðnason, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, dr. Kolbrún Friðriksdóttir, lektor í annarsmálsfræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og dr. Branislav Bédi, verkefnisstjóri á íslenskusviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir