Brýnt að auka daglega hreyfingu barna
Ráðstefnan Vetrarmót íþróttakennara var haldin á vegum íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík fimmtudaginn 8. janúar. Kristján Halldórsson, kennari við íþróttafræðideild, setti mótið.

Ráðstefnan hófst með stuttum fyrirlestrum frá þeim Dóru Sif Egilsdóttur og Ágústi S. Björgvinssyni. Dóra Sif kynnti hagnýtt verkefni úr meistaranámi sínu um hreyfingu ungra barna og Ágúst kynnti lokaverkefni sitt um aðgengilega körfuboltatímaseðla fyrir byrjendur handa íþróttakennurum. Seinni hluti ráðstefnunnar var helgaður því hvernig íþróttakennurum hefur tekist til við að auka daglega hreyfingu barna.
Frétt RÚV frá byrjun desember sl. um hækkandi hlutfall barna með offitu var notuð sem kveikja að umræðum sem beindust að því hvernig íþróttakennarar geta beitt sér í starfi til virkja börn á grunnskólaaldri til hreyfingar. Sérstaka athygli fékk sá hópur sem tekur síður þátt í skólaíþróttum.

Þær Björk Varðardóttir íþróttakennari, og Linda Heiðarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla sátu í pallborði um það hvernig íþróttakennurum gangi að hafa áhrif á daglega hreyfingu barna m.a. hvaða áskoranir og hindranir séu helst í veginum og hvaða áherslur séu helst í kennslu skólaíþrótta og innan skóladags barna.
Linda nefndi að mikilvægt væri að fá nemendur, sem ekki æfa íþróttir reglulega, til að prófa eitthvað nýtt. Þarna væri t.d. lag að nýta mannaflann í starfsliðinu til að kenna það sem þau kunna og nefndi sem dæmi að hún hefði kennt miðstigi samkvæmisdans þar sem hún hefði bakgrunn í slíku. Þá var síðastliðið haust ákveðið að breyta árlegu skólahlaupi í Réttarholtsskóla þannig að það höfðaði til fleiri nemenda. Tókst það vel til en hlaupið var kynnt í bekkjum til að skapa meiri stemningu og hlaupa-, eða gönguleiðin prófuð fyrirfram í íþróttatímum.
Björk ræddi m.a. um týndu börnin, þ.e.a.s. þau sem vilja ekki vera með í íþróttatímum og kjósa frekar að horfa á. Hún hefur lagt áherslu á það í sinni kennslu að gripin séu tækifæri til að prófa ýmislegt eins og t.d. tennis og klifur, og hafi það borið góðan árangur að fá nemendur til að taka þátt á eigin forsendum. Bætti hún við að því meira sem barn fær að prófa því sterkari fara þau út í lífið og geta þá einnig frekar sérhæft sig í íþróttagrein síðar, hafi þau hug á slíku.

Það skapaðist góð umræða á mótinu hjá okkur og mjög þarft að íþróttakennarar ræði möguleika sína á milli og eigi í samstarfi. Við höfum líka lagt okkur fram um það hér við deildina hjá okkur að búa til vettvang fyrir íþróttafræðikennara í sínu starfi til að ræða saman hugmyndir og áskoranir í starfi, auk þess að hvetja til nýsköpunar og grósku innan fagsins
Segir Sveinn Þorgeirsson, háskólakennari við íþróttafræðideild HR og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar.
Dagsetning
Deila