8. desember 2025
Dr. Marta Kristín Lárusdóttir hlýtur NordForsk-styrk fyrir rannsóknir á innkaupum gervigreindarkerfa fyrir heilbrigðisþjónustu
8. desember 2025
Dr. Marta Kristín Lárusdóttir hlýtur NordForsk-styrk fyrir rannsóknir á innkaupum gervigreindarkerfa fyrir heilbrigðisþjónustu
Dr. Marta Kristín Lárusdóttir, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, hefur hlotið veglegan rannsóknarstyrk frá NordForsk fyrir þátttöku sína í norræna rannsóknarverkefninu AI-PROCARE.
Þriggja ára styrkurinn, sem nemur um 200 milljónum króna, mun styðja samstarfsvettvang vísindamanna frá fjórum Norðurlöndum: Svíþjóð, Íslandi, Danmörku og Finnlandi, sem gerir AI-PROCARE að sannkölluðu norrænu samstarfsverkefni. Hlutur Íslands er um 50 milljónir króna, sem Marta mun nýta til að leiða einn af megin verkhlutunum og ráða nýdoktor í fullt starf út verkefnistímann.
Af 216 umsóknum hlutu einungis 17 styrk, sem undirstrikar gæði og samkeppnishæfni AI-PROCARE verkefnisins.
Ég er alveg í skýjunum yfir þessu. Þetta er einstakt tækifæri til að leggja mitt af mörkum til rannsókna sem geta raunverulega haft áhrif á hvernig gervigreind mótar starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustu og aukið vellíðan starfsfólksins.
Segir Marta.
Umsögn dómnefndar
Verkefnið fékk afar lofsamlega umsögn frá matsnefnd NordForsk en þar segir meðal annars:
„Verkefnið tekur á afar mikilvægu málefni í ábyrgri þróun gervigreindar, þ.e. innkaupum gervigreindarkerfa í heilbrigðisþjónustu, með traustu og frumlegu verklagi.“
„Kristaltær framsetning á metnaðarfullu og fræðilega sterku verkefni.“
„Frábært verkefni sem tekur á lykilmáli í ábyrgri þróun gervigreindar, með afar traustri rannsóknaráætlun, miklum væntingum til árangurs og mjög góðu rannsóknarteymi.“
AI-PROCARE verkefnið
AI-PROCARE er leitt af Åsa Cajander, prófessor við Uppsala háskólann í Svíþjóð. Að auki leiða þau Torkil Clemmensen, prófessor við Copenhagen Business School, og Johanna Viitanen, lektor við Aalto háskólann, verkhluta innan verkefnisins.
Í stað þess að líta á innkaup sem formlegt, stjórnsýslulegt eða lagalegt ferli, nálgast AI-PROCARE þau sem ferli sem mótar framtíðarvinnu, fagleg hlutverk og sjálfbærni starfsumhverfis í heilbrigðisþjónustu.
AI-PROCARE leitast við að efla fræðilega þekkingu á ábyrgum innkaupum gervigreindarkerfa með því að:
- Þróa nýja fræðilega sýn á innkaup gervigreindarkerfa.
- Framkvæma empírískar rannsóknir innan heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum.
- Útbúa sannreyndar leiðbeiningar sem styðja við sjálfbært, sanngjarnt og hvetjandi starfsumhverfi.
- Samræma stafræna umbreytingu og sjálfbærni faglegrar vinnu til lengri tíma litið.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir