28. október 2025
Fjársjóðsleit, fræðsla og fjör á Sjálfbærnidegi HR
28. október 2025
Fjársjóðsleit, fræðsla og fjör á Sjálfbærnidegi HR
Sjálfbærnidagur HR verður haldinn hátíðlegur í Háskólanum í Reykjavík þann 29. október n.k. í tilefni af alþjóðlega sjálfbærnideginum sem er haldinn síðasta miðvikudag í október ár hvert.
Ýmislegt áhugavert verður í boði á Sjálfbærnideginum eins og hádegismálstofa þar sem sérfræðingar úr háskólanum og atvinnulífinu ræða helstu skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði loftslagsmála með sérstakri áherslu á framlag og ábyrgð fyrirtækja í baráttunni gegn loftslagsvánni. Sjá nánar hér.

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir er verkefnastjóri sjálfbærnimála á háskólaskrifstofu. Hún segir mikilvægt á degi sem þessum að styrkja samtaka máttinn og samvinnuna í sjálfbærni og auka sýnileika þeirra frábæru sjálfbærniverkefna sem eiga sér stað nú þegar í HR. Þá sé mikilvægt að búa til vettvang þar sem fólk getur komið saman í tilefni dagsins:
Við þurfum líka að minna okkur á hvað aukin sjálfbærni er mikilvæg fyrir okkur. Fyrir nemendur er dagurinn líka frábært tækifæri til þess að kynnast betur fyrirtækjum sem HR er í virku samstarfi við og eru að vinna í sjálfbærni á hverjum degi eins og Landsvirkjun og Landsnet. Á næstu árum þurfum við að sjá markvissar jákvæðar breytingar í samfélaginu, þar sem við förum úr of mikilli streitu og ósjálfbærri auðlindanýtingu yfir í sjálfbærara og hamingjusamara samfélag.
Önnur fyrirtæki sem verða með kynningar á starfsemi sinni í Sólinni upp í hádeginu og fram eftir degi eru Fríðbúð Sorpu, Humble og Festa. Þá fer fram styrkjaúthlutun SIF í Sólinni og einnig verður viðburður fyrir starfsmenn HR.

Þórhildur Fjóla hvetur sem flesta að koma í Sólina og taka þátt í deginum enda margt spennandi í boði:
Fjársjóðsleit í Fríbúð Sorpu í Sólinni finnst mér mjög spennandi og í framhaldinu að taka þátt í spurningaleik sem Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri Hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu verður með, ég ætla ekki að missa af því. Einnig verður mjög gaman að heyra hvað doktorsnemar við HR eru að gera í loftslagsmálum á hádegismálstofu CLoCCS.
Spurð hvað við getum sjálf gert til að stuðla að meiri sjálfbærni í daglegu lífi segir Þórhildur Fjóla:
Sjálfbærni snýst ekki bara um umhverfismál og fjárhag heldur líka um okkar vellíðan, bæði andlega og líkamlega og það hefur sýnt sig að vera sem mest úti í náttúrunni hefur mjög jákvæð áhrif á okkur. Útivistin tengir okkur betur við náttúruna og okkur sjálf og okkur langar í kjölfarið meira til þess að vera með henni í liði og hlúa að umhverfinu í kringum okkur.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir