Flókin tengsl samfélagsmiðla og tölvuleikja við líðan barna og unglinga krufin
Vel heppnuð málstofa fór nýverið fram á vegum sálfræðideildar HR þar sem fjallað var um áhrif tölvuleikja og samfélagsmiðla á líðan ungmenna. Málstofan bar heitið; Samfélagsmiðlar, tölvuleikir og líðan: Hvað vitum við og hvað getum við gert?
Berglind Sveinbjörnsdóttir, lektor og forstöðumaður MSc náms í hagnýtri atferlisgreiningu, og Þórhildur Halldórsdóttir, dósent við sálfræðideild, sáu um skipulag málþingins og segja það hafa gengið vonum framar.
Það tókst vel til að miðla þekkingu vísindafólks til almennings með því að fá til okkar góða blöndu fyrirlesara. Þau ræddu bæði um efnið út frá rannsóknum og komu með hagnýt ráð sem við öll ættum að geta nýtt okkur. Erindin fjölluðu um ólíka aldurshópa en rauði þráðurinn í þeim voru þessi flóknu tengsl milli samfélagsmiðla og tölvuleikja við líðan. Það er engin ein lausn til við þeim vanda sem skapast getur af notkuninni en samstarf foreldra og barna er þar mjög mikilvægt. Erindin gagnast öllum þeim sem er umhugað um velferð barna og ungmenna og við hvetjum fólk til þess að hlýða á þau.
Málstofan er sú fyrsta í röð árlegra málstofa sem komið hefur verið á laggirnar innan deildarinnar til að miðla þekkingu og rannsóknum á áskorunum sem eru efst á baugi í samfélaginu.
Erlendir og innlendir fyrirlesarar fjölluðu um rannsóknir á þessu sviði sem og hagnýt ráð varðandi samfélagsmiðla- og tölvuleikjanotkun hjá börnum, unglingum og fullorðnum.

Málstofuna opnaði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og með fundarstjórn fór Dr. Kamilla Rún Jóhannsdóttir, deildarforseti sálfræðideildar.
Hér fyrir neðan má nálgast upptöku af viðburðinum og upplýsingar um erindi og fyrirlesara:
Dagsetning
Deila