Námið
Rannsóknir
HR

14. apríl 2025

Forritunarkennsla er mjög skapandi

Úlfur Atlason, verkefnastjóri Skema, er fulltrúi þess fyrir Evrópusamstarfsverkefnið EUCodeWeek. Með samstarfinu er ætlað að tengja saman aðila sem koma að forritunar- og upplýsingatæknimenntun fyrir börn í Evrópu. Hópurinn kom saman í Búlgaríu nýverið.

Í Búlgaríu lögðum við grunninn að þessu samstarfi og undirbúningi  EUCodeWeek sem verður haldin í október. Við sóttum ýmsa fyrirlestra og ég kynntist kennurum, verkefnastjórum og fólki úr atvinnulífinu sem öll vinna að sama markmiði. Það var góð stemning í hópnum og frjótt hugarfar ríkjandi. Okkar verkefni hjá Skema snýr að því að byggja upp grasrótarstarf í forritunarkennslu í grunnskólum. Þetta gerum við í góðu samstarfi, ég, Zuzanna Elvira Korpak, aðstoðar verkefnastjóri Skema,og  Guðný Ólafsdóttir, grunnskólakennari á Dalvík.

Úlfur kynntist m.a. fólki af Norðurlöndunum þar sem svipað starf fer fram og innan Skema og er verið að skoða sérstakt samstarf þar á milli. Úlfur segir Norðurlöndin alla jafna vera komin framar en Ísland. Á Norðurlöndunum sé búið að innleiða forritun í námskrá grunnskóla að fullu en á Íslandi ekki nema að hluta til. Þar þurfi að gera betur í íslensku skólakerfi. Almennt séu lönd í vestur og norður Evrópu lengra á veg komin en lönd í sunnanverðri Evrópu.

Má nefna að í Finnlandi er forritunarkennsla orðin hluti af aðal námsskrá grunnskóla. Börnum er kennd grunn forritun og kennslunni blandað mikið við önnur fög t.d. tungumál og stærðfræði.

Forritunarkennsla er nefnilega mjög skapandi og auðvelt að búa til t.d. stærðfræðiverkefni eða þjálfa tungumál með því að búa til teiknimyndir og gagnvirkar sögur. Sífelllt meiri áhersla er lögð á hinar svokölluðu STEAM greinar og með forritun má tengja saman alla stafina. (STEM-greinar eru fræðagreinar á sviði verkfræði, raunvísinda, tækni, tölvunarfræði og náttúruvísinda.)

Allar upplýsingar um hvernig til mun takast að virkja grunnskólakennara hér á landi verða settar inn í sérstakan gagnargrunn fyrir verkefnið. Með því verður síðan greint hvernig forritunarkennsla er að þróast í Evrópu.

Ég hlakka mikið til að fá kennara með mér í lið. Okkur langar að halda viðburði fyrir kennara og láta þá fá efni til að nota fyrir sína nemendur. Aðal markmiðið er að koma þeim af stað þannig að þeir sem hafi ekki mikla þekkingu geti prófað sig áfram með einföldum verkefnum. Megin markmiðið er að vera komin með nógu góða grasrót og nógu marga í lið með okkur til að geta haldið veglegan viðburð í október þegar EUCodeWeek vikan  verður haldin.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir