Námið
Rannsóknir
HR

11. september 2025

Forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík

Forsetastyrkir voru afhentir í gær á forsetalistaathöfn Háskólans í Reykjavík, miðvikudaginn 10. september. Að þessu sinni voru það 49 nemendur sem komust á forsetalista HR.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir rektor flutti ávarp þar sem hún minnti á mikilvægi og virði þeirrar vinnu sem skilar árangri í námi:

Dr. Ragnhildur Helgadóttir rektor HR

En það sem mér finnst skipta mestu máli, fyrir ykkur og fyrir framtíðina, er vinnan sem kom ykkur á þennan stað. Þið hafið öll lagt mikið á ykkur til að vera hér í dag. Sú vinna er mikils virði, það sem þið lærðuð svona vel skiptir máli, og þið munið alltaf búa að þeirri reynslu að hafa lagt mikið á ykkur og uppskorið.

Þá ræddi hún einnig mikilvægi gagnrýnnar hugsunar:

Við hér í HR leggjum mikið upp úr því að hlúa að og efla gagnrýna hugsun, og ekki síður mennskuna, bæði hjá ykkur nemendum og hjá okkur sjálfum. Þannig getum við betur nýtt okkur tæknibreytingarnar sem þegar eru farnar að umturna stórum þáttum í samfélaginu okkar, og verið við stjórnvölinn þar í stað þess að fylgjast með á hliðarlínunni. Og þar finnst okkur hér í HR spennandi að vinna með ykkur nemendum í að finna sem bestar og frjóastar leiðir til þess að tækniþróun á hinum ýmsu sviðum samfélagsins verði eins góð og mögulegt er.

Ávarp Ragnhildar má nálgast hér.  

Sara Arndís Thorarensen, nemi í BSc í orku- og véltæknifræði fluttti ávarp fyrir hönd nemenda. Í ávarpi sínu ræddi hún meðal annars um mikilvægi vegferðarinnar hverju sinni frekar en útkomunnar:

Ég lærði að loka útkoman skiptir í raun ósköp litlu máli, það er vegferðin sem kemur manni á leiðarenda sem er mikilvæg. Og það á í raun við um allt í þessu lífi. Spurningin er ekki hvert þú ætlar, einhver áfangastaður, heldur hvernig þú kemst þangað.

Sara Arndís Thorarensen, nemi í BSc í orku- og véltæknifræði

Þá minntist hún einnig á mikilvægi þess að læra af mistökum sínum:

Við lærum af mistökunum og þurfum kannski að snúa við og velja nýja leið, sem opnar ný tækifæri sem okkur hafði ekki órað fyrir. Ef við erum tilbúin að samþykkja að það geti verið mörg rétt svör, og margar réttar leiðir til að komast að þeim, þá opnast um leið hurðir sem áður stóðu lokaðar og möguleikarnir verða óendanlegir.

Ásthildur Gunnarsdóttir, samskiptastjóri HR, stýrði athöfninni og deildarforsetar afhentu nemendum viðurkenningarskjöl.

Forsetastyrkir eru veittir nemendum sem bestum árangri ná á hverri önn og fá þeir þannig skólagjöld næstu annar niðurfelld. Til þess að vera gjaldgengir á forsetalista þurfa nemendur að ljúka að minnsta kosti 30 einingum á önn. Forsetastyrkur felur í sér niðurfellingu hluta skólagjalda þannig að nemandi greiðir einungis skólagjöld grunnnáms meðan á meistaranámi stendur að því gefnu að námsárangur sé góður og að námið sé tekið á fullum hraða.

Forsetalisti HR haustið 2025
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir