11. október 2024
Frænkur, smiðir og HR-ingar
11. október 2024
Frænkur, smiðir og HR-ingar

Skagfirsku frænkurnar Bjarnveig Rós Bjarnadóttir og Ester María Eiríksdóttir stunda báðar nám við Iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík. Þær segjast lítið finna fyrir því að vera konur í faginu en jafnt og þétt hefur saxast á kynjahalla við deildina.
Bjarnveig er ættuð frá Mannskaðahóli en Ester frá Hofsósi . Bjarnveig hóf nám í byggingariðnfræði nú í haust en Ester vinnur að sínu lokaverkefni í byggingatæknifræði. Þær eru báðar með sveinspróf auk stúdentsprófs og hafa unnið saman sem smiðir.
Ester lauk stúdentsprófi frá VMA og tók húsasmíðanámi um leið þar en kláraði samninginn á Hofsósi.
Ég hafði í raun áhuga á mörgum fögum en mig langaði að læra eitthvað hagnýtt svo ég fór í smíðina og tók stúdentinn með. Að því loknu lá leiðin beint í tæknifræðina þar sem ég hef haldið áfram í mjög svo hagnýtu námi.
Bjarnveig lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut og hóf síðan húsasmíðanám og var á samningi í trésmiðjunni Borg á Sauðárkróki. Hún er nú á fyrsta ári í byggingariðnfræði.
Húsasmíðin kom þannig til að ég var á rúntinum með pabba sem var nýbyrjaður í helgarnámi í smíðum á Króknum. Ég fór að spyrja hann út í námið og fannst það hljóma vel svo ég ákvað að slá til. Mér bauðst að taka helgarnámið og dagskólann á sama tíma þannig að ég náði kallinum og við gamli útskrifuðumst saman. Þegar kom að vali á háskólanámi fannst mér byggingariðnfræðin áhugaverðust og sá að hún myndi auka möguleika mína í framtíðinni.

Þær frænkur eru sammála um að námið sé krefjandi og mikilvægt að halda vel á spöðunum og sinna því vel. Um leið sé námið ótrúlega praktíkst og langflestir komnir með góða vinnu að því loknu. Þá skilar námið um leið lögvernduðu starfsheiti sem húsasmíðameistari.
Þær Ester og Bjarnveig hafa unnið saman á sumrin og þá aðallega komið að endurbótum. Verkefnin segja þær fjölbreytt og fela m.a. í sér glugga- og þakskipti, pallasmíði og uppsetningu eldhúsinnréttinga. Þá starfaði Ester á verkfræðistofu í sumar en Bjarnveig hefur upp á síðkastið unnið við að reisa einingahús frá grunni.
Í lokin berst talið að framtíðarplönum. Ester hyggur á meistaranám í verkfræði erlendis. Bjarnveig segist jafnvel sjá fyrir sér að koma meira að teikningu í framtíðinni og segir námið vera frábæran grunn.
Þetta nám er frábær grunnur til að hafa í farteskinu sama hvað þú ákveður síðan að gera í framhaldinu.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir