23. júní 2024
Gleðin við völd þegar 692 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík
23. júní 2024
Gleðin við völd þegar 692 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík
692 nemendur útskrifuðust frá Háskólanum í Reykjavík í gær með alls 701 prófgráðu. Fyrir hádegi var brautskráning af tæknisviði og eftir hádegi var brautskráning af samfélagssviði. Báðar athafnir fóru fram í Eldborg í Hörpu.
340 nemendur útskrifuðust af tæknisviði, 226 karlmenn og 114 konur. 264 útskrifuðust úr grunnnámi, 73 úr meistaranámi og fjórir úr doktorsnámi. 55 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi við iðn- og tæknifræðideild. Frá tölvunarfræðideild útskrifuðust 111 úr grunnnámi, 15 úr meistaranámi og tveir úr doktorsnámi. 98 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi frá verkfræðideild, 58 úr meistaranámi og tveir úr doktorsnámi.
352 nemendur útskrifuðust af samfélagssviði, 127 karlmenn og 225 konur. 220 útskrifuðust úr grunnnámi og 132 úr meistaranámi. 36 nemendur útskrifuðust úr grunnnámi við íþróttafræðideild og 15 úr meistaranámi. Frá lagadeild útskrifuðust 41 úr grunnnámi og 37 úr meistaranámi. 63 útskrifuðust úr grunnnámi við sálfræðideild og 34 úr meistaranámi. Frá viðskipta- og hagfræðideild útskrifuðust 80 úr grunnnámi og 46 úr meistaranámi.
Framtíðarsýn og sérstaða HR
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, óskaði útskriftarnemum til hamingju með áfangann og hvatti þau til þess að fagna vel unnu verki, vera stolt og leyfa sér að gleðjast yfir því að hafa lokið námi, sem í einhverjum tilfellum var t.d. markað af heimsfaraldri Covid-19.

„Svo stígið þið nú út í heim, sem mörgum finnst kaldari eða dimmari en oft áður, með harðari átökum í ýmsum heimshlutum, hlýnun jarðar og fleiru. En óháð öllu þessu, og kannski einmitt sem mótvægi, er útskrift svo mikið gleðiefni!“
Ragnhildur ræddi einnig þá ákvörðun HR í vetur að afnema ekki skólagjöld í kjölfar tilboðs frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu um fulla fjármögnun ríkisins gegn afnámi skólagjalda.
„Ráðuneytið byggði á því að með breytingunni myndu tekjur HR á ársgrundvelli skerðast um allt að 1,2 milljarða króna en kostnaður hefði ekkert færst til. Stúdentar við HR – mörg ykkar sem hér eruð – stigu fram og lýstu því að ómögulegt yrði að halda uppi þeirri sérstöðu sem skólinn hefur ef tilboði ráðuneytisins yrði tekið. Það var hárrétt mat enda hafnaði skólinn tilboðinu á þeim forsendum að ekki væri mögulegt að ganga að því, og á sama tíma halda áfram að bjóða framúrskarandi menntun, aðstöðu og þjónustu og standa fyrir rannsóknum á heimsmælikvarða. Frá og með næstu önn verður Háskólinn í Reykjavík því eini háskólinn á Íslandi sem er að hluta til fjármagnaður með skólagjöldum,“ sagði Ragnhildur og benti í framhaldinu á að sú staða kallaði á að hugsa afar skýrt hvernig skóli HR vill vera og af hverju skólagjöld væru innheimt.

„Hver er framtíðarsýnin, hver er sérstaðan og hvernig stöndum við okkur? Framtíðarsýnin er einföld: Við ætlum að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina með því að bjóða frábært nám, praktískt og akademískt, og skapa þekkingu sem breytir heiminum, standandi öðrum fætinum í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hinum í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Sú blanda skiptir máli og það skiptir máli að standa vörð um valfrelsi nemenda og að íslenskt háskóla- og vísindastarf sé margradda,“ sagði Ragnhildur.
Hvað sérstöðuna varðaði þá nefndu nemendur fjölbreyttar ástæður fyrir því að velja HR.
„Nemendur nefna margir gæði námsins, aðrir hlýjuna, sumir alþjóðatengslin og enn aðrir smæðina. Skurðpunkturinn er þó alltaf sú áhersla HR að vera nemendamiðaður skóli þar sem nemendur fá tækifæri til að vaxa – en athugið að þótt við leggjum mikið upp úr því að mæta hverjum og einum þar sem hann er, þá sláum við auðvitað ekkert af kröfunum. Þá værum við að fórna framtíðarsýninni og það gerum við ekki.“
Samfylgdin með skólafélögunum ómetanleg
Jakob Daníelsson, sem útskrifaðist með BSc-próf í hátækniverkfræði, hélt hátíðarræðu fyrir hönd útskriftarnema af tæknisviði. Hann rifjaði upp þegar hann hóf nám í HR fyrir þremur árum síðan og hversu mikið það hefði verið rætt við nýnemana í upphafi annar að muna að hafa gaman af náminu.

„Ég hugsaði að það væru nokkrir áfangar sem ég ætti auðvelt með að hafa gaman af, en það væri kannski erfiðara með að hafa gaman af til dæmis línulegri algebru, en ég myndi reyna. Nú stend ég hér þremur árum síðar, horfi til baka á skólagönguna og hugsa hvað þetta var skemmtilegt. Og það hefur ekki bara með námsefnið sjálft að gera því jafnvel erfiðustu og þurrustu áfangarnir urðu skemmtilegir. Af hverju?“ sagði Jakob og rifjaði þá upp að það hefði líka verið talað um að nám væri hópíþrótt.
„Ég var fullkomlega ósammála. Þetta er þriggja ára mission sem byrjar og endar inn á bókasafni og ég er að fara klára sjálfur. Þetta hugarfar var ekki lengi að breytast og maður fattaði fljótt hvað þetta var raunverulega mikil hópíþrótt. Það er eflaust hægt að komast í gegnum námið einn og óstuddur. En það sem hefur gert háskólagönguna ómetanlega er samfylgdin með skólafélögum, að fá að kynnast nýjum vinum í gegnum námið og að fá að vinna með þeim á hverjum degi.“
„Hér kynntist ég fólki sem mun fylgja mér út ævina“
Aron Heimisson, sem útskrifaðist með BSc-próf úr sálfræði, hélt hátíðarræðu fyrir hönd útskriftarnema af samfélagssviði. Hann sagði meðal annars að það væri ákveðin staðfesting á hve vel honum hefði liðið í HR að hann er skráður í meistaranám við skólann í haust.

„Skólinn byggir nefnilega á faglegum gildum og leggur mikið upp úr þjónustu við nemendur. Alltaf fann maður fyrir áhuga og umhyggju frá starfsfólki skólans, hvort sem maður var nýbyrjaður eða núna korteri fyrir útskrift. Alltaf var hægt að nálgast kennara og oftar en ekki fann maður fyrir miklum vilja þeirra til að koma til móts við nemendur, hvort sem það kom fram í metnaðarfullum svörum, aukinni viðveru eða tölvupóstsamskiptum á hálf fáránlegum tímum,“ sagði Aron. Að hans mati væri félagslegi þátturinn við það að vera í háskólanámi eitt af því sem stæði upp úr eftir síðastliðin þrjú ár.
„Hér kynntist ég fólki sem mun fylgja mér út ævina og það, fyrir mér, trompar allt annað. Fólkinu kynntist ég ýmist innan sálfræðinnar eða utan hennar, t.a.m. í þverfaglegum áföngum sem skólinn býður upp á og á hinum ýmsu viðburðum sem haldnir eru af nemendafélaginu; vísindaferðum, árshátíðum, skíðaferðum og svo mætti lengi telja.“
Kennarar og annað starfsfólk Háskólans í Reykjavík óskar öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með daginn og óskar þeim velfarnaðar í hverju því sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni.
///
692 students graduated from Reykjavik University yesterday. In the morning students from the School of Technology graduated and in the afternoon students from the School of Social Sciences graduated. Both ceremonies were held at Eldborg in Harpa.
340 students graduated from the School of Technology, 226 men and 114 women. 55 graduated from undergraduate programs at the Department of Applied Engineering. From the Department of Computer Science 111 graduated from undergraduate programs, 15 from graduate programs and 2 graduated with PhD. 98 graduated from undergraduate programs at the Department of Engineering, 58 from graduate programs and 2 graduated with PhD.

352 students graduated from the School of Social Sciences, 127 men and 225 women. 36 students graduated from undergraduate programs at the Department of Sports Science and 15 from graduate programs. From the Department of Law 41 students graduated from undergraduate programs and 37 from graduate programs. 63 students graduated from undergraduate programs at the Department of Psychology and 34 from graduate programs. From the Department of Business and Economics 80 students graduated from undergraduate programs and 46 from graduate programs.
In her speech Ragnhildur Helgadóttir, President of Reykjavik University, spoke among other things about RU‘s decision a few months ago to continue collecting tuition fees after an offer from the Ministry of Higher Education, Science and Innovation regarding increased state contribution and no tuition fees, as well as no change in costs. From next fall semester RU will therefore be the only university in Iceland that is partly funded with tuition fees.
„That situation is a call for us to think very clearly about what kind of university we want to be and why we allow ourselves to collect tuition fees. What is our vision for the future, what is RU‘s unique position and how are we doing? Our vision for the future is simple: We intend to prepare society for the future by offering excellent eduation, practical and academic, with one foot in international scientific cooperation and the other foot in Icelandic society and industry. This mix is important, and it is important to protect that students have freedom to choose and that Icelandic higher education and scientific society has many voices,“ said Ragnhildur.
Teachers and other staff at RU congradulate all those who graduated yesterday and wish them all the best in the future.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir