19. nóvember 2025
Framkvæmdastjórn ESB veitir styrk upp á 250 milljónir króna til stafrænnar nýsköpunar
19. nóvember 2025
Framkvæmdastjórn ESB veitir styrk upp á 250 milljónir króna til stafrænnar nýsköpunar
Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi (e. European Digital Innovation Hub) hefur hlotið styrk upp á rúmar 250 milljónir króna frá framkvæmdastjórn ESB. Verkefnið verður leitt af Rannsóknamiðstöð Íslands – Rannís, í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Auðnu tæknitorg og Almannaróm.
Með styrknum mun miðstöðin, sem oft gengur undir skammstöfuninni EDIH-IS, halda sínu starfi áfram í þrjú ár til viðbótar. EDIH-IS er samstarfsvettvangur sem sameinar innlenda sérfræðiþekkingu og getu í gervigreind, notkun ofurtölva og netöryggi til að efla stafræna nýsköpun, bæði í opinbera- og einkageiranum. Samstarfsnetið miðar að því að stuðla að stafrænni umbreytingu í hinum ýmsu atvinnugreinum.
Háskólinn í Reykjavík býður áfram upp á meistaranám í gervigreind sem sett var á laggirnar í fyrri lotu EDIH-IS. Í náminu er lögð áhersla á siðferðilega nálgun á gervigreind í samræmi við evrópsk gildi.
Með meistaranámi í gervigreind leggjum við í HR okkar lóð á vogarskálarnar með það að markmiði að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina. Styrkurinn mun styðja við okkar núverandi markmið í kennslu og rannsóknum á gervigreind, sem og styrkja tengsl okkar við íslenskt atvinnulíf á þessum sviðum.
Segir Henning Arnór Úlfarsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR.
Við HR er til staðar sérhæfð aðstaða til rannsókna, þróana og prófana á gervigreindarlausnum, ásamt því sem haldið er úti fræðslu fyrir almenning, fyrirtæki og stofnanir um gervigreind. Má þar t.a.m. nefna inngangsnámskeið í gervigreind í Opna háskólanum sem er tilkomið fyrir tilstilli EDIH-IS með það að markmiði að gera meira af aðgengilegu efni um gervigreind miðað að stjórnendum og fleirum í viðskiptalífi.
Ísland leiðir nýjan vinnuhóp
EDIH-IS mun leiða nýjan vinnuhóp innan Evrópu, Women in AI, sem leggur áherslu á að auka fjölbreytni í tæknigeiranum. Markmið hópsins verður að styrkja konur til að móta framtíð gervigreindar ásamt því að skapa tækifæri til uppbyggingar, tengslamyndunar og stefnumarkandi samstarfs. Vinnuhópurinn mun þannig stuðla að því að gervigreindarlausnir verði þróaðar út frá breiðari sjónarhornum, en í dag er talið að einungis 20% þeirra sem starfa á sviði gervigreindar séu konur. Undirbúningsvinna fyrir vinnuhópinn er nú þegar hafin og hafa fjölmörg Evrópuríki lýst yfir stuðningi sínum við stefnu hans.
Er þetta í takt við þau verkefni sem haldið hefur verið úti í HR sem liður í því að hvetja konur til náms í tæknigreinum. Má þar helst nefna verkefnið Stelpur, stálp og tækni sem sett var á fót árið 2014. en þá er stelpum og stálpum úr 9. bekkjum grunnskóla boðið í háskólann og tæknifyrirtæki. Viðburðurinn er haldinn að erlendri fyrirmynd en Girls in ICT Day er fagnað á heimsvísu ár hvert.
Einnig starfar við HR félagið /sys/tur hagsmunafélag kvenna og kvára í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Þess má geta að félagið var tilnefnt til verðlauna á Nordic Women in Tech Awards árið 2023 en markmið þess er að skapa tengslanet meðal hópsins og efla áhuga og þátttöku í greininni.
Þá ber þess að geta að Anna Sigríður Islind, prófessor við tölvunarfræðideild, og Bridget E. Burger, sérfræðingur hjá rannsóknarþjónstu HR, hlutu nýverið svokölluð Nordic Women in Tech Awards. Verðlaun sem eru veitt árlega og tileinkuð kvenfyrirmyndum í tækniiðnaðinum.
Allar helstu upplýsingar um Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi má nálgast hér
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir