Námið
Rannsóknir
HR
28. janúar 2026

Háskólinn í Reykjavík og Landsvirkjun sækja um einkaleyfi á nýrri lausn í jarðhitanýtingu

Háskólinn í Reykjavík (HR) og Landsvirkjun hafa sótt sameiginlega um einkaleyfi til Evrópsku einkaleyfastofunnar fyrir nýrri tæknilausn sem miðar að bættri nýtingu jarðhitaauðlinda. Lausnin felst í aðferð við að ákvarða stærðir og varmafræðilega eiginleika þeysis sem gerir kleift að nýta jarðhitaborholur sem áður var ekki hægt að nýta vegna of lágs þrýstings. Þeysir (ejector) er nokkurs konar dæla sem tengir saman vökvastrauma undir mismunandi þrýstingi.

Undirritun samstarfssamningsins: 
Ríkarður S. Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun og Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

Lausnin stuðlar að bættri nýtingu jarðhitakerfa, lengri nýtingartíma jarðhitahola og aukinni hagkvæmni orkuvinnslu, án þess að grípa þurfi til umfangsmikilla og kostnaðarsamra aðgerða. Hún fellur vel að áherslum um sjálfbæra orkunýtingu og skilvirkari nýtingu náttúruauðlinda og getur bætt nýtingu borholna sem þegar hefur verið fjárfest í á jarðvarmasvæðum en ekki nýtast til orkuvinnslu í dag.

Uppfinningamenn lausnarinnar eru Ximena Guardia Muguruza doktorsnemandi, María Sigríður Guðjónsdóttir dósent, Egill Júlíusson, aðjúnkt og fyrrverandi starfsmaður Landsvirkjunar, Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir prófessor, Yonatan Afework Tesfahunegn dósent og Jeffrey Macatangay Andal, fyrrverandi meistaranemi, öll við verkfræðideild HR, auk Karls Emils Sveinssonar, umsjónarmanns gufuveitu á Mývatnssvæði hjá Landsvirkjun. Lausnin hefur verið í prófun á Þeistareykjasvæði Landsvirkjunar og í Orkutæknistofu í Háskólanum í Reykjavík með góðum árangri.

HR og Landsvirkjun hafa átt í formlegu samstarfi í rúman áratug og er einkaleyfisumsóknin afrakstur náins og langvarandi samstarfs þeirra á sviði rannsókna, nýsköpunar og þróunar lausna á sviði orku- og loftslagsmála. Verkefnið hlaut styrk úr Tækniþróunarsjóði árið 2021.

Verkefnið undirstrikar mikilvægi samstarfs háskólasamfélags og orkufyrirtækja við að þróa tæknilausnir sem styðja við orkuskipti, bætta orkunýtingu og loftslagsmarkmið til framtíðar.

Hópmynd: 

Efri röð: Hilmar Már Einarsson verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, Ragnhildur Helgadóttir rektor HR, Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir skrifstofustjóri hjá HR, Kristján Einarsson verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, Ólafur Eysteinn Sigurðsson sviðsforseti tæknisviðs HR, Ásgeir Ásgeirsson deildarforseti tæknifræðideildar HR, Ríkarður S. Ríkarðsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, Hjalti Páll Ingólfsson forstöðumaður þróunar og auðlinda jarðvarma hjá Landsvirkjun.

Neðri röð: Ármann Gylfason deildarforseti verkfræðideildar HR, Yonatan Afework Tesfahunegn dósent við HR, Karl Emil Sveinsson umsjónarmaður gufuveitu hjá Landsvirkjun, Ximena Guardia Muguruza doktorsnemi við HR, María Sigríður Guðjónsdóttir dósent við HR, Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir prófessor við HR, Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, Bjarni Pálsson framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun.

Á myndina vantar Egil Júlíusson, aðjúnkt við HR og fyrrverandi starfsmann Landsvirkjunar.

28. janúar 2026
Nýjustu fréttirnar