21. maí 2025
HR og Reitir fasteignafélag hefja þriggja ára samstarf og efna til hugmyndasamkeppni
21. maí 2025
HR og Reitir fasteignafélag hefja þriggja ára samstarf og efna til hugmyndasamkeppni
Háskólinn í Reykjavík og Reitir fasteignafélag hafa undirritað rammasamning um samstarf til þriggja ára. Samstarfið felur í sér árlega hugmyndasamkeppni fyrir nemendur HR þar sem þau fá tækifæri til að takast á við raunveruleg verkefni úr starfsemi Reita. Samstarfið er mikilvægt skref í að efla tengsl háskólasamfélagsins og atvinnulífsins með áherslu á nýsköpun, sköpunargleði og hagnýta reynslu nemenda.
Hugmyndasamkeppni sem tengir nám og raunveruleg verkefni
Í samstarfinu munu HR og Reitir standa fyrir hugmyndasamkeppni þar sem nemendur þvert á deildir fá tækifæri til að taka þátt í þróun lausna á raunverulegum viðfangsefnum sem Reitir vinna að, eða stefna að í framtíðinni. Verkefnin endurspegla þær áskoranir og tækifæri sem fyrirtækið stendur frammi fyrir.
Hugmyndasamkeppni sem þessi á sér fyrirmynd víða erlendis í sumum af framsæknustu háskólum heims og er oft nær sérstaklega eftirsótt tækifæri fyrir nemendur.
Einstakt tækifæri til þróunar og nýsköpunar
Samstarfið byggir á sameiginlegum markmiðum sem miða að því að efla nýsköpun, styrkja tengsl háskólasamfélags og atvinnulífs og skapa tækifæri til þróunar fyrir báða aðila.

Keppnin er verðmætt tækifæri fyrir nemendur sem taka þátt til þess að styrkja tengsl sín við atvinnulífið, nýta fræðilega þekkingu sína á hagnýtan hátt, þróa færni í teymisvinnu, verkefnastjórnun og kynningu, fá faglega endurgjöf frá sérfræðingum og kynnast starfi fyrirtækja innan fasteignageirans.
Háskólinn í Reykjavík er í fremstu röð þegar kemur að sterkum tengslum við atvinnulífið og samstarfið er mikilvæg brú sem tengir menntun og nýsköpun, eflir frumkvöðlahugsun, og eykur hagnýtt gildi námsins við háskólann.
Samstarfið er ekki síður farvegur fyrir nýja nálgun, ferskar hugmyndir og nýsköpun í starfsemi Reita en félagið er leiðandi á Íslandi í uppbyggingu, útleigu og þróun fasteigna og nýrra reita.
„Sterk tengsl við atvinnulífið og áhersla á nýsköpun hafa verið aðalsmerki Háskólans í Reykjavík allt frá stofnun. Þetta nýja samstarf við Reiti er liður í því að efla þessi tengsl og þessa áherslu enn frekar. Samstarfið veitir nemendum okkar góð tækifæri til þess að nýta þekkingu sína í raunverulegum verkefnum, taka þátt í nýsköpun og styrkja sín eigin tengsl við atvinnulífið,“ segir Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík.
„Við erum virkilega spennt að hefja nýja vegferð með Háskólanum í Reykjavík, og efla nýsköpun í okkar verkefnum í samstarfi við þann öfluga hóp nemenda sem stundar nám við háskólann. Samstarfið er ekki síður liður í samfélagslegri ábyrð Reita og framlag til menntunar og nýsköpunar,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.
Sköpunargleðin hefst í haust
Fyrsta hugmyndasamkeppnin verður haldin haustið 2025 og munu nánari upplýsingar um keppnina verða kynntar við upphaf haustannar háskólans.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir