Námið
Rannsóknir
HR

16. desember 2025

HR og utanríkisráðuneytið gera samstarfssamning um þróunarsamvinnu

Háskólinn í Reykjavík og utanríkisráðuneytið hafa gert með sér samstarfssamning sem miðar að því að efla alþjóðlega þróunarsamvinnu. Samningurinn styður við faglega uppbyggingu, rannsóknir og nýliðun á sviðum sem tengjast þróunarsamvinnu og er í samræmi við stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Af þessu tilefni funduðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR og Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Á fundinum formgerðu utanríkisráðherra og rektorar háskólanna samstarf um styrkveitingar frá utanríkisráðuneytinu til rannsóknarverkefna við að byggja upp tengsl við háskóla í Afríku sunnan Sahara og styrkja þannig þekkingu á málefnasviðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hérlendis. 

Silja Bára Ómarsdóttir, rektor HÍ, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR. Ljósmynd: Stjórnarráðið

Með samningnum er lögð áhersla á rannsóknir sem þróa hagnýtar lausnir og aðferðir sem nýtast á vettvangi, auka sýnileika fræðasviða sem styðja við þróunarsamvinnu og stuðla að hagnýtingu þekkingar úr vísindarannsóknum, meðal annars með stuðningi við rannsóknar- og þróunarverkefni.

Þróunarsamvinnusjóður HR er opinn samkeppnissjóður sem styður rannsóknar- og þróunarverkefni sem miða að þekkingaryfirfærslu til lágtekjuríkja á lista OECD-DAC, í samræmi við þróunarsamvinnustefnu Íslands. Markmið sjóðsins er að efla alþjóðlegt samstarf HR, stuðla að nýsköpun í þróunarsamhengi og leggja til þekkingu í þágu mannréttinda, sjálfbærni og friðar. Kallað er eftir umsóknum einu sinni á ári.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir