HR verðlaunin 2025 afhent
HR-verðlaunin fyrir árið 2025 voru veitt á jóladegi starfsfólks Háskólans í Reykjavík sem haldinn var síðastliðinn miðvikudag. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: fyrir framúrskarandi kennslu, þjónustu og rannsóknir. Verðlaunahafar hljóta, auk heiðursins, peningaverðlaun og viðurkenningarskjal.
HR verðlaunin voru fyrst veitt árið 2010. Valið fer fram þannig að nemendur og starfsmenn tilnefna einstaklinga en val á verðlaunahöfum er í höndum dómnefndar sem styðst við upplýsingar um kennsluferil, kennslumat, rannsóknarmat, ferilskrá og fleira.

Kennsluverðlaun HR
Yngvi Björnsson, prófessor við tölvunarfræðideild, hlaut kennsluverðlaun HR. Í rökstuðningi nemenda kemur m.a. fram að Yngvi sé einstaklega þolinmóður og góður kennari sem hafi ástríðu fyrir kennslunni og kveiki áhuga nemenda á námsefninu. Einn nemandi lýsir Yngva á þennan hátt:
Ég hef sjaldan vitað eins þolinmóðan og góðan kennara. Hann leggur mikinn metnað í kennsluna, gerir verkefnin áhugaverð og hjálpar okkur að læra. Það er auðvelt að tala við hann og fá hann til að útskýra efnið nánar og hann sýnir alvöru ástríðu fyrir kennslunni.

Rannsóknarverðlaun HR
Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor í sálfræði, hlaut rannsóknarverðlaun HR 2025. Jón Friðrik hlýtur verðlaunin fyrir áratugalangt, metnaðarfullt og áhrifamikið rannsóknarstarf sitt en hann gegndi lykilhlutverki í að móta og byggja upp meistaranám í sálfræði við HR, þar sem lögð er rík áhersla á vísindaþekkingu og -læsi. Þá gegndi Jón einnig mikilvægu hlutverki sem forstöðusálfræðingur á geðsviði Landspítalans þar sem hann leiddi mikilvæg framþróunarverkefni til að efla vísindamiðað starf fagstéttarinnar. Einnig er hann frumkvöðull í réttarsálfræði á Íslandi vegna starfa sinna hjá Fangelsismálastofnun

Þjónustuverðlaun HR
Anna Lára Gísladóttir, verkefnafulltrúi á fjármálasviði, hlýtur þjónustuverðlaun HR árið 2025. Um Önnu Láru segir að hún sé einstakur starfsmaður sem sameini djúpa þekkingu, framúrskarandi þjónustulund og fagmennsku sem hefur mikil áhrif á daglegt starf innan HR. Hún sinni starfi sínu af mikilli nákvæmni og eljusemi og takist á við þau vandamál sem koma upp með einstakri ró, skipulagi og fagmennsku.
Við óskum handhöfum verðlauna Háskólans í Reykjavík árið 2025 innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Dagsetning
Deila