17. október 2025
Jákvæð orka og mikil ánægja meðal þátttakenda
17. október 2025
Jákvæð orka og mikil ánægja meðal þátttakenda
Verkefni þróttafræðinema við Háskólann í Reykjavík eru fjölbreytt en fyrr í haust sáu fyrst árs nemar um að framkvæma mælingar á eldri borgurum sem taka þátt í heilsueflingunni Virkni og vellíðan. Það verkefni miðar að Heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi og er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Breiðabliks, Gerplu og HK, Háskólans í Reykjavík og UMSK.

Virkni og vellíðan hófst haustið 2020 og hefur vaxið og eflst með hverju ári síðan. Þátttakendum hefur fjölgað stöðugt og eru nú yfir 600 skráðir í þjónustuna.
Fríða Karen Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Virkni og vellíðan, segir verkefnið hafa farið hægt af stað vegna Covid-19, en hafi síðan vaxið hratt og orðið að öflugu heilsueflingarverkefni fyrir eldra fólk í Kópavogi. Hún segir samstarfið við Háskólann í Reykjavík hafa reynst afar mikilvægt við þróun á verkefninu;
Þegar Virkni og vellíðan var komið vel á veg fannst okkur tímabært að fá HR með okkur í lið til þess að kanna hvort það sem við værum að gera væri að skila þeim árangri sem við töldum. Samstarfið við HR hefur verið okkur afar mikilvægt hvað varðar þróun á verkefninu og hefur samstarfið skapað ný tækifæri til mælinga, þekkingar og framfara. Með mælingum meistara- og grunnnema í íþróttavísindum fáum við faglegar og áreiðanlegar upplýsingar um áhrif þjálfunarinnar á hreysti og vellíðan þátttakenda. Þetta gerir okkur kleift að fylgjast með árangri yfir lengri tíma og sjá hvort þátttakendur viðhaldi eða bæti líkamlega getu sína. Við erum því mjög þakklát fyrir samstarfið.
Fríða Karen segir mikla gleði ríkja í kringum hópinn og ánægju meðal þátttakenda.

Það er alltaf svo jákvæð orka þegar nemarnir eru að mæla. Þau eru svo hvetjandi og það skapast alveg einstakt andrúmsloft því þetta er svo gefandi fyrir alla bæði nemendurna og eldra fólkið. Allir læra og eldra fólkið nýtur þess að taka þátt og finnur að áhugi nemanna skiptir þau máli.
Fríða Karen er útskrifaður íþróttafræðingur frá íþróttafræðideild HR. Hún útskrifaðist með BSc í íþróttafræði árið 2018. Fríða Karen segir námið hafa reynst vel í starfi og samstarfið við HR sé henni kært;
Námið í íþróttafræði við HR hefur nýst mér gríðarlega vel í starfi mínu sem verkefnastjóri Virkni og vellíðan. Þar fékk ég bæði fræðilega þekkingu á öllu því sem tengist heilsu og heilsueflingu og jafnframt hagnýta reynslu af því að vinna náið með ólíkum hópum fólks í samfélaginu. Í náminu fékk ég meðal annars tækifæri á því að sérhæfa mig í þjálfun eldra fólks og var það þá sem grunnurinn að hugmyndinni um Virkni og vellíðan kviknaði. Ég er þakklát fyrir að hafa fundið mitt áhugasvið í náminu og fá að þróa áfram Virkni og vellíðan og sjá verkefnið verða að veruleika. Þar af leiðandi hefur samstarfið við HR verið okkur afar kært.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir