20. nóvember 2025
Lífið kviknaði í sjónum
20. nóvember 2025
Lífið kviknaði í sjónum
Dr. Snjólaug Árnadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er afkastamikill rannsakandi sem hefur sérhæft sig á sviði þjóðaréttar, hafréttar og umhverfisréttar. Snjólaug brennur fyrir því að nýta lögfræðina náttúrunni og mannkyninu til góða og hefur verið áberandi í umræðunni um þjóð- og hafréttarmál hérlendis sem og erlendis.

Áhugi Snjólaugar á þessu lagasviði kviknaði fyrst í skiptinámi í Gautaborg þar sem hún lauk 15 eininga námskeiði í hafrétti. Hún segir námskeiðið hafa verið einstaklega skemmtilegt en það fól í sér vinnuferð út í eyjuna Tjärnö í Skerjagarðinum við Gautaborg. Þar voru nemendurnir fram á nótt að vinna við kortagerð og teikna upp hafsvæðin með sirkil að vopni. Þessi óhefðbundna lögfræði greip Snjólaugu alveg.
Hafrétturinn er eitt elsta svið þjóðarréttarins en það er til lögfræðibók um hafrétt frá 1609. Það var einna helst á sjónum sem ólíkar þjóðir mættust og þurftu að setja sameiginlegar reglur m.a. um hvernig mætti nema land, ákveða landhelgi þess og stjórna umferð annarra um svæðið.
Lífið kviknaði í sjónum
Snjólaug segir skilning fyrir mikilvægi og fjölbreytileika hafsins ekki vera mikinn. Lífið hafi jú kviknað í sjónum og þar sé að finna ógrynni af lífrænum og ólífrænum auðlindum og viðkvæmum vistkerfum. Í mynd Sir David Attenborough, Ocean, leggi hann áherslu á að ef við náum að bjarga sjónum þá náum við að bjarga jörðinni.
Mikilvægasti staður á plánetunni er í hafinu. Við erum ocean planet eins og hann orðar það enda er um 70% af yfirborði jarðar haf og lífmassi dýraríkisins miklu meiri í hafi en á landi. Við skiljum ekki einu sinni hversu mikið er af auðæfum þarna en erum samt að reyna að tala um hvernig og hverjir megi nýta auðlindir sem við þekkjum ekki nægilega vel til. Á djúpsjávarbotninum er t.a.m. búið að finna nýtt lífform sem byggir á efnatillífun en ekki ljóstillífun, sem var lengi talin vera eini grundvöllur lífs. Nú eru uppi alls konar hugmyndir um hvernig megi nýta erfðaefni og málmhnyðlinga á þessu svæði en líka áköll um að banna námugröft á hafsbotninum alfarið. Þarna er að mörgu að huga en við þessa iðju losnar t.d. mikið af koldíoxíði sem annars færi ekki í andrúmsloftið.
Hafrétturinn beittari
Í hafi mætast ríki helst og margar deilur varða landamæri í hafi auk yfirráða yfir olíu og gasi, fiskveiðar, umhverfisvernd, siglingaréttindi og hvar megi byggja manngerðar eyjar, t.d. í Suður Kínahafinu, eða vindmyllur á hafi. Snjólaug bendir í þessu samhengi á áhugavert dómsmál tengt skjaldbökum í útrýmingarhættu í Suður Kínahafi þar sem niðurstaða dómstóla var sú að notkun ákveðinna veiðarfæra, og bygging manngerðra eyja, væri brot á hafréttarsamningnum vegna þess að verið væri að eyðileggja heimkynni viðkvæmra tegunda.
Í þessu tilviki var stjórnarskrá hafsins túlkuð mjög dýnamískt til að halda í við nútímann. Hafrétturinn er á suma vegu beittari en önnur svið þjóðarréttarins því hann býður upp á víðtækt aðgengi að alþjóðlegum dómstólum og honum er beitt með sífellt breiðari hætti. Þjóðarréttur er mjög pólitískt fag og erfitt að framfylgja honum en í hafrétti er ætíð sá möguleiki fyrir hendi að stefna ríkjum og því er hægt að ýta málum áfram innan hans sem er ekki hægt annars staðar. Þetta sýndi sig nýlega þegar fyrsta alþjóðlega loftslagsmálið var tekið fyrir á grundvelli hafréttarsamningsins. Þá staðfesti Alþjóðlegi hafréttardómurinn að loftslagsbreytingar falli undir hafrétt. Sum sé, það að losa koldíoxíð frá landi eða í gegnum andrúmsloftið, sem endar á því að hafa áhrif á sjó, sé mengun hafsins því það veldur áhrifum á borð við hækkandi sjávarmál, súrnun sjávar og hlýnun sjávar. Þetta er mjög áhugaverð túlkun og í framhaldinu gætu opnast flóðgáttir á málshöfðanir á milli landa vegna ófullnægjandi loftslagsaðgerða. Íslenska ríkið gæti þá átt von á því að fá á sig stefnur fyrr en varir, bæði á grundvelli hafréttar og líka mannréttinda.

Starfsemi CLoCCS gengur út á að mæta loftslagsbreytingum
Árið 2022 setti Snjólaug, í samstarfi við Inga Poulsen og Bjarna Má Magnússon, á fót Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnun HR, CLoCCS. Starfsemi hennar gengur út á að mæta loftslagsbreytingum, sem eru einhver stærsta tilvistarógn samtímans, með áhrifaríkum rannsóknum og samráði við haghafa.
Við viljum hraða aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og stuðla að sjálfbærara samfélagi í gegnum áhrifaríkar rannsóknir með því að brúa bilið milli akademíu og atvinnulífsins, auka þekkingu á áskorunum tengdum loftslagsbreytingum og sjálfbærni og stuðla að þróun löggjafar og stefnumörkunar í málaflokknum. Við viljum einblína á hvað vanti upp á til að lögin verði eins og þau eiga að verða (de lega ferenda) frekar en hvernig þau eru (de lege lata), breyta þekkingu í aðgerðir og þróa námsefni og námsleiðir á þessum mikilvægu sviðum.
Snjólaug segir að þetta séu spennandi tímar í loftslags- og umhverfisrétti því alþjóðasamfélagið og réttarkerfi heimsins séu að átta sig á því hvað heilnæmt umhverfi hefur víðtæka skírskotun.
Sem dæmi er ekkert ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu um umhverfi, náttúru eða loftslagsmál og samt staðfesti Mannréttindadómstóllinn í apríl 2024 að í sáttmálanum felist einhvers konar réttur til heilnæms umhverfis. Þ.e. að umhverfisvernd og aðgerðir gegn loftslagsvánni séu forsenda þess að annarra mannréttinda verði notið. Þá er ekki heldur minnst á loftslagsbreytingar í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en samt staðfesti Hafréttardómurinn í maí 2024 að ríki þurfi að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að vernda hafið gegn afleiðingum loftslagsbreytinga. Þessu til viðbótar áréttaði Alþjóðadómstóllinn í Haag það í júlí sl. að ríki hafi víðtækar loftslagsskyldur á grundvelli loftslagssamninga Sameinuðu þjóðanna, venjuréttar og meginreglna þjóðaréttar og beri ábyrgð á því að bæta það tjón sem af aðgerðum þeirra og aðgerðaleysi hlýst. Þessi nýlega dómaframkvæmd sýnir að við getum nýtt lögfræðina sem hreyfiafl þegar stjórnvöld grípa ekki til nauðsynlegra aðgerða. Í þessu samhengi er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir og leiti réttar síns og að fjölmiðlar sinni sínu mikilvæga hlutverki sem fjórða valdið.

Frábært tækifæri til rannsókna á Íslandi
Ef ekkert er aðhafst og ef losun koldíoxíðs heldur áfram að aukast þá eru um 70% líkur á að Golfstraumurinn hrynji og gæti það gerst fyrir næstu aldamót. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á úrkomumynstur, veðurfar, sjávarstöðu og mataröryggi hérlendis og víða um heim.
Það er skiljanlegt að víða heyrist af loftslagsþreytu og kvíða enda er hrun líffræðilegs fjölbreytileika, sem getur fylgt loftslagsbreytingum, ekki sérlega upplífgandi umræðuefni. En við á Íslandi höfum einstakt tækifæri til að vera í forystu fyrir rannsóknir og þróun hugmynda og mikilvægt að nýta það tækifæri áður en einhver ríki grípa mögulega til örþrifaráða með því að ráðast í illa undirbúnar og afdrifaríkar aðgerðir. Við þurfum að setja meiri fókus á þessi mál og kljást við þau með sama samtakamætti og gert var til að afstýra hörmungum í tengslum við Covid og gatið í ósonlaginu. Þetta er marglaga viðfangsefni, sem kallar á þverfaglegar rannsóknir, en við eigum í raun ekki annara kosta völ en að mæta áskoruninni. Með elju og bjartsýni að leiðarljósi, og því að vera leiðandi í að þróa iðnað sem verður bráðnauðsynlegur, bíða stór tækifæri fyrir Ísland. Þá ítreka ég að meiri fræðslu er þörf, ekki að forðast umræðuefnið heldur að draga það fram í dagsljósið og takast á við það. Það er ekki nóg að líta á loftslagsvandann sem bókhaldsvandamál og að minnka losun er alls ekki nóg. Við verðum líka að búa okkur undir það hvernig við ætlum að lifa í breyttum veruleika.
Snjólaug lauk BA-prófi í lögfræði frá lagadeild HR 2011 og meistaraprófi frá lagadeild HR í sama fagi árið 2014. Hún lauk doktorsprófi í lögfræði frá Edinborgarháskóla í júlí 2018 og skrifaði, á grunni doktorsritgerðar sinnar, bókina Climate Change and Maritime Boundaries sem var gefin út af Cambridge University Press í desember 2021.
Tengt efni
Forsíðumynd: Saga Sig.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir