Námið
Rannsóknir
HR

7. október 2025

Margir rugla saman metnaði og fullkomnunaráráttu

Helga Margrét Rúnarsdóttir og Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir, meistaranemar í klínískri sálfræði og starfsnemar hjá Sálfræðiþjónustu HR, flytja erindi um skuggahliðar fullkomnunaráráttu í námi fimmtudaginn næstkomandi 9. október.

Fyrirlesturinn er hluti af Geðheilbrigðisviku HR sem fer fram vikuna 6.-10. október í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins þann 10. október. Það er Nemendaráðgjöf HR, í samstarfi við sálfræðideild, sem skipuleggur vikuna með viðburðum sem öllum er ætlað að miða að bættri, andlegri líðan.

Í erindinu kafa þær Helga Margrét og Sonja ofan í hvað liggur að baki slíki áráttu, áhrif hennar á daglegt líf og hvað sé hægt að gera til að sleppa tökunum.  


Þær segja að fullkomnunarárátta leiði ekki endilega til þess að nemendur skari fram úr, þvert á móti getur hún orðið til þess að þeir festist í óhjálplegum vítahring frestunar eða gert það að verkum að þeir fórna andlegri heilsu með því að einblína um of á árangur. Hins vegar sé gott að hafa metnað en margir rugli metnaði og fullkomnunaráráttu saman. Munurinn liggi í því hvernig einstaklingurinn hugsar um mistök, sjálfsvirði og væntingar og ekki síst hversu hamlandi þessi hugsun er í daglegu lífi.

Fullkomnunarárátta birtist oft í miklum og ósveigjanlegum kröfum til sjálfs síns, ótta við mistök og stöðugri sjálfsgagnrýni. Hún getur leitt til kvíða, streitu og að manni líði eins að það sem er gert sé aldrei nóg, jafnvel þegar vel gengur. Sumir upplifa slíkan ótta við að standa ekki undir eigin væntingum að þeir forðast að hefja verkefni eða fresta þeim endalaust.

Þær segja það geta verið mjög erfitt fyrir einstaklinga með fullkomnunaráráttu að sleppa tökunum þar sem sjálfsvirði þeirra byggist oft á frammistöðu. Það reynist mörgum erfitt að gera breytingar eða sætta sig við það sem er „nægilega gott“. Til að sleppa tökunum þarf að æfa sig í að þola óvissu, gera mistök án þess að rífa sig niður, byggja upp sjálfsmat sem er ekki eingöngu byggt á afköstum eða árangri. Þetta eru allt þættir sem hægt er að vinna með, til dæmis í sálfræðimeðferð.

Á undanförnum árum hafi meðvitund aukist um að fullkomnunarárátta geti haft neikvæð áhrif á námsfólk og fræðsluefni sé orðið mun sýnilegra;

Margir háskóla- og framhaldsskólanemendur upplifa mikla pressu til að standa sig fullkomlega sem getur leitt til kvíða, frestunar og jafnvel þunglyndis. Þessi þróun hefur orðið til þess að skólar, ráðgjafar og heilbrigðisstarfsfólk ræða í auknum mæli áhrif fullkomnunaráráttu á líðan nemenda. Fræðsluefni hefur orðið mun sýnilegra og margir skólar bjóða nú upp á námskeið, ráðgjöf og verkefni sem miða að því að hjálpa nemendum að draga úr sjálfsgagnrýni, efla sjálfsmildi og finna betra jafnvægi milli frammistöðu og vellíðunar.

Fyrirlesturinn fer fram fimmtudaginn 9. október klukkan 12:15 í stofu M106 og eru öll velkomin.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir