Námið
Rannsóknir
HR

6. nóvember 2025

María Rún Bjarnadóttir gengur til liðs við lagadeild HR

María Rún Bjarnadóttir hefur gengið til liðs við lagadeild HR þar sem hún mun leiða enn aukna áherslu deildarinnar á rannsóknir og kennslu á sviði tækniréttar og stafrænna lagalegra álitaefna.  Doktorsritgerð hennar ber heitið; Does the Internet Limit Human Rights Protection? Sexual Privacy and the Limits of the Law. María Rún hefur sérhæft sig á mörkum mannréttinda- og tækniréttar og unnið ötullega að baráttu gegn stafrænu ofbeldi, sérstaklega í garð stúlkna og kvenna.

María Rún starfaði hjá embætti ríkislögreglustjóra frá árinu 2021 og hóf þá störf sem verkefnisstjóri stafræns ofbeldis, en var síðan forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar og nýsköpunar- og stefnumótunarstjóri áður en hún tók við stöðu yfirlögfræðings og staðgengils ríkislögreglustjóra. Þar stýrði hún meðal annars þróun nýrrar tilkynningagáttar um netglæpi hjá lögreglu og vann að innleiðingu gervigreindar í starfsemi embættisins.  

María Rún lauk doktorsprófi frá lagadeild Sussex háskóla árið 2021, meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2008 og BA í lögfræði frá HÍ árið 2006. Hún hefur tekið þátt í rannsóknum, jafnt hérlendis sem erlendis, er snúa að áhrifum tækni á lýðræðislega innviði og tekið að sér ráðgjafahlutverk fyrir viðskipta-, dómsmála- og forsætisráðuneytin. Hún hefur til að mynda unnið að málatilbúnaði fyrir íslensk stjórnvöld fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, skrifaði frumvarp sem varð að lögum um kynferðislega friðhelgi  og leiddi sendinefnd Íslands í samningaviðræðum um nýjan samning Sameinuðu þjóðanna um netbrot.  

Þá hefur María Rún flutt fjölda fyrirlestra og haldið námskeið á sínum ferli, heima og heiman. Þar má nefna fyrirlesturinn Gendered Online Abuse: Responses and Remedies á Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna árið 2023, erindi hjá Chatham House í London undir yfirskriftinni Understanding the Cybercrime Economy sama ár og námskeið um stafrænt ofbeldi fyrir dómara og saksóknara í Moldóvu í febrúar 2024. 

María situr í Grevio nefnd Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl samningsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, á sæti í landsnefnd UN Women á Íslandi og er varaformaður Lögfræðingafélags Íslands. 

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir