Námið
Rannsóknir
HR

11. nóvember 2025

Meðferðarúrræðið FLIKK veitir börnum með kvíðaraskanir aðstoð mun fyrr en ella

Brynjar Halldórsson, dósent við sálfræðideild, Anna Sigríður Islind, prófessor við tölvunarfræðideild og Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor og deildarforseti íþróttafræðideildar, leiða FLIKK rannsóknarverkefnið fyrir Háskólann í Reykjavík. 

FLIKK er nýtt meðferðarúrræði fyrir börn með kvíðaraskanir og foreldra þeirra. Úrræðinu er ætlað að veita börnum aðstoð mun fyrr en ella, stytta biðtíma og sömuleiðis minnka kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Verkefnið fékk stóran styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu og hefur sá styrkur verið þýðingarmikill til að koma verkefninu á koppinn. Með FLIKK er tryggt að börn fái rétta meðferð og rannsóknir gefa til kynna að allt að 80% hljóta bata. 

Um er að ræða internetmeðferð fyrir foreldra barna með kvíðaraskanir. Meðferðin byggir á hugrænni atferlismeðferð (HAM) þar sem foreldrar fá aðstoð frá sálfræðingi í gegnum meðferðina með það að markmiði að þeir læri aðferðir HAM til að hjálpa börnum sínum að ná tökum á kvíðavanda. 

Við veltum stórum steinum því við treystum foreldrum til að vísa sér sjálfir. En þeir eru jú sérfræðingar í sínum börnum og þekkja þau best og það þarf ekki endilega öll þessi flækjustig innan heilbrigðiskerfisins til að nálgast aðstoð. Þetta kann að hljóma yfirþyrmandi í fyrstu en foreldrar, sem nýtt hafa sér FLIKK, hafa verið fljótir að tileinka sér meðferðarúrræðið. Svo eru fjölskyldur í dag svo uppteknar en með FLIKK býðst sá sveigjanleiki að foreldrar geta nýtt sér meðferðarefnið þegar þeim hentar. Við sjáum t.d. að foreldrar logga sig inn á kvöldin svo það hjálpar að þurfa ekki að mæta á ákveðnum tíma og geta sinnt meðferðarefninu þegar þeim hentar.  

Segir Brynjar.

Ísland tilbúið í stafræna heilbrigðistækni 

FLIKK er notendamiðuð stafræn heilbrigðistæknilausn sem er hönnuð af heilindum með aðferðarfræði co-design. Co-design, eða samhönnun er í raun aðferðafræði þar sem notendur eru hafðir með í ráðum frá fyrstu stundu og það segir Anna Sigríður að geri gæfumuninn. 

Auk þess er lausnin hugsuð þannig að hún minnki vegalendirnar, sem oft eru miklar hér á landi, og það sé gott að fólk geti hreinlega sótt nauðsynlega heilbrigðisþjónustu heiman frá sér. Í FLIKK er líka sá eiginleiki fyrir hendi að hjálpa sálfræðingum með nótur, nokkuð sem sparar þeim mikilvægan tíma sem þeir geta frekar varið í að veita meðferð.  

Við munum ekki vinna bug á ummönnunarvandanum í heilbrigðiskerfinu nema með snjöllum, nýstárlegum heilbrigðistæknilausnum, þannig að það er líka þess vegna sem við erum að stíga þetta skref. Við höfum fengið mikla og jákvæða endurgjöf á FLIKK þannig að ég hugsa að Ísland sé alveg tilbúið í þetta skref í átt að stafrænni heilbrigðistækni.  

Segir Anna Sigríður.

Innleitt af NHS og víðar um heim 

Úrræðið er byggt á stafrænu lausninni Online Support and Intervention for Child Anxiety (OSI) sem tekið hefur verið upp af breska heilbrigðiskerfinu (NHS). Er lausnin byggð á rannsóknum prófessors Cathy Creswell, virts, bresks sálfræðings sem sérhæfir sig í barna- og þroskasálfræði með sérstakri áherslu á kvíðaraskanir hjá börnum og unglingum. Hún gegnir prófessorsstöðu við Háskólann í Oxford þar sem hún stýrir rannsóknarhópnum The Oxford Psychological Interventions for Children and Adolescents (TOPIC)

Brynjar hefur starfað náið með Cathy Creswell í rúman áratug og snúast rannsóknir þeirra um að auka skilning á kvíðaröskunum meðal barna og auka aðgengi að árangursríkum úrræðum. Upp úr þessu samstarfi segist Brynjar hafa séð gríðarlegt tækifæri fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og bætir við;

Geðheilsa barna er mjög aðkallandi viðfangsefni í íslensku heilbrigðiskerfi í dag. Skortur er á aðgengi að meðferðaraðilum sem sérhæfa sig í meðferðum við kvíðaröskunum og biðlistar eru mjög langir. Með FLIKK getum við sinnt fólki á öllu landinu og erum fyrst þjóða í heiminum til að innleiða svona tæknilausn á landsvísu.  Á næstu árum sjáum við fram á að ná að innleiða FLIKK um land allt og gera þetta að viðurkenndri grunnþjónustu innan heilbrigðiskerfisins.  

Kvíði er flókið samspil

Brynjar segir alls konar ástæður fyrir því að foreldrar leiti sér ekki aðstoðar. Foreldrar viti oft ekki hvaða hjálp sé í boði, skilji ekki leiðir heilbrigðiskerfisins og vilji ekki að barnið sitt upplifi fordóma eða skömm. Foreldrar upplifi líka gjarnan sjálfir skömm og að vandamálið sé þeim að kenna. FLIKK grípur þetta og sýnir foreldrum bæði að það er ekki endilega hægt að benda á eitthvað eitt sem útskýri afhverju börn þeirra eru kvíðin og valdeflir þau einnig í að hjálpa börnum sínum að yfirstíga kvíðavandann. 

Lykilatriðið er að foreldrar vilja læra árangursríkar aðferðir. Með því að kenna þeim þessi inngrip eru þau miklu betur í stakk búin til að kenna barninu sínu eitthvað nýtt og um leið að hjálpa þeim að yfirstíga kvíðavandann. Við vitum að í 50% tilfella er kvíðavandinn byrjaður fyrir 12 ára aldur og í allt of mörgum tilfellum er fólk ekki að fá greiningu fyrr en mörgum árum síðar og svo er líka oft löng bið eftir meðferð. Við verðum að grípa þessi vandamál mun fyrr. Ferlið til að nálgast rétta meðferð er allt of langt og kvíðavandinn er oft mest truflandi á aldrinum 18-30 ára þegar fólk er að velja sér nám, koma sér upp fjölskyldu og taka stórar ákvarðanir í lífinu. Þá er kvíðinn oft orðinn svo alvarlegur að hann hamlar fólki mikið og hefði verið mjög hjálplegt að grípa inn í mun fyrr. Þetta sé ég trekk í trekk í starfi mínu t.d. á geðsviði Landspítalans þar sem ég sinni í dag fullorðnum einstaklingum með alvarlegan kvíðavanda. 

Segir Brynjar.

Alþjóðleg innleiðing byggð á reynslu HR 

Nýverið var Háskólanum í Oxford veittur styrkur upp á 7 milljónir punda, um 1,1 milljarða króna, af Wellcome Trust til að leiða innleiðingu tæknilausnarinnar í Chile, Filipseyjum, Tælandi, Japan og Pakistan. Í tilkynningu frá samtökunum segir að OSI lausnin hafi þegar hlotið góðar viðtökur á Íslandi bæði meðal foreldra og heilbrigðisstarfsmanna og innleiðingin þar lofi góðu. 

Það er áhugavert við Wellcome Trust að ætlað er að innleiða úrræðið líka í fátækari ríkjum þar sem fólk hefur ekki aðgang að tölvum og engin slík geðheilbrigðisþjónusta hefur áður verið til staðar. Slíka þjónustu er því verið að innleiða í fyrsta sinn og hlutverk okkar hér í HR verður að kenna hinum þjóðunum hvernig á að gera þetta byggt á okkar reynslu en Ísland er fyrsta þjóðin sem tekur tæknilausn eins og FLIKK frá öðru landi og innleiðir hana hjá sér.  

Segir Anna Sigríður.

Verður styrkurinn nýttur til að gera vísindafólki og heilbrigðisstarfsfólki í alls sjö löndum kleift að vinna saman með sérfræðingum og samstarfsaðilum úr viðskiptaheiminum við að aðlaga, prófa og innleiða verkfærið í þessum löndum. Verkefnið mun ná til 1.600 barna og stefnir teymið að því að tryggja að OSI virki í margvíslegu samhengi og eins að sköpuð verði skilyrði til að hægt sé að innleiða það hratt og á sjálfbæran hátt í stærra mæli. 

Rannsóknir í Bretlandi hafa sýnt að OSI er bæði klínískt og kostnaðarlega hagkvæmt. Það dregur úr þeim tíma sem meðferðaraðilar þurfa að verja og skilar jafnframt frábærum árangri þegar það er framkvæmt af aðilum án sérfræðimenntunar. Þetta gerir það sérstaklega hentugt til notkunar á svæðum þar sem börn og ungmenni hafa takmarkaðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu t.a.m. á landsbyggðinni. 

Anna Sgiríður segir stafræna heilbrigðistækni vera komna til að vera og ánægjulegt sé að taka þátt í þeirri breytingu hérlendis;

Við fengum líka styrk frá Sustainability Institute and Forum í HR, enda stuðlar verkefnið líka að sjálfbærni. Við erum ótrúlega þakklát fyrir jákvætt viðmót frá vísindasamfélaginu, sálfræðingum, heilsugæslum, foreldrum og börnum á þessari nýju vegferð. Stafræn heilbrigðistækni er komin til að vera og það er ótrúlega gaman að fá að vera hluti af þeirri breytingu hérlendis. 

Um 100 börn eru nú þegar skráð hjá FLIKK en vonir standa til að innleiða einnig aðra útgáfu af FLIKK sem er sérstaklega ætluð foreldrum barna með einhverfu og kvíða. Ef þú átt barn á aldrinum 5-12 ára sem þú telur að glími við kvíða og  vilt fá aðstoð getur þú skráð þig hér í FLIKK . Í fyrstu er óskað eftir að foreldrar svari nokkrum spurningum til að meta hvort meðferðin henti. Ef svörin benda til þess að barnið þurfi aðstoð, mun sálfræðingur á heilsugæslustöð hringja stuttlega í þig. Í símtalinu verður FLIKK útskýrt nánar og farið yfir hvort þú/þið uppfyllið inntökuskilyrðin. Sé svo fá foreldrar aðgang að FLIKK og er úthlutað meðferðaraðila sem leiðir þau í gegnum meðferðina. 

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir