Mjög gefandi að starfa við rannsóknir sem geta haft raunveruleg áhrif á heilsu fólks
Gabriele Boretti, doktorsnemi í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík, hlaut nýverið styrk úr Minningarsjóði Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar til styrktar stúdentum í verkfræði- og raunvísindanámi.
Í doktorsverkefni sínu vinnur Gabriele að rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði vefjaverkfræði, þar sem lífstoðefni (e. bioamaterials) og frumur eru sameinuð með 3D prentun til að búa til 3D-prentaðan brjóskvef. Slík nálgun getur lagt grunn að nýjum lausnum til að endurnýja eða bæta upp brjósk sem skaddast vegna meiðsla eða slits, með það að markmiði að þróa lífvirkar og sérsniðnar vefjasmíðar.
Leiðbeinandi Gabriele er Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, sviðsforseti við Háskólann í Reykjavík, og er verkefnið unnið í samstarfi við Blóðbankann, þar sem þverfagleg þekking á lífstoðefnum, stofnfrumum og framleiðsluferlum nýtist til að færa rannsóknina nær hagnýtingu.
Ég kom upphaflega hingað til að vinna að lokaverkefni mínu í meistaranámi undir leiðsögn Óla og Paolo Gargiulo, prófessors við verkfræðideild. Ég var þá í lífverkfræði námi við Háskólann í Bologna á Ítalíu. Ég dvaldi hér í átta mánuði og starfaði mest með Paolo og Hannesi Högnasyni sem aðstoðaði mig við að þróa bioreactor kerfi . Ég prófaði síðan að nota bioreactor kerfið með stofnfrumum hjá Blóðbankanum undir leiðsögn Óla. Þetta var mjög áhugavert þar sem ég fékk tækifæri til að starfa á mismunandi rannsóknarstofum og lærði mikið.

Að lokinni átta mánaða dvöl við HR sneri Gabriele aftur til Ítalíu og lauk meistaragráðu sinni, samhliða því að starfa að hluta sem aðstoðarmaður við rannsóknir við HR. Svo fór að hann sneri aftur til Íslands, en þá hafði íslensk stúlka að nafni Alma fangað hjarta hans, og hann ákvað í kjölfarið að setjast að á Íslandi. Gabriele hóf störf hjá Alvotech en hálfu ári síðar gafst tækifæri til að hefja doktorsnám í í HR sem hann hefur nú stundað í ein þrjú ár undir leiðsögn Ólafs Eysteins.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þrívíddar lífprentun og sú framtíðarsýn að geta mögulega prentað líffæri eins og hjörtu, lifur eða nýru er afar spennandi, enda er mikil eftirspurn eftir slíkum líffærum og biðlistar langir, sérstaklega með hækkandi aldri þjóðarinnar.
Gabriele segir aðstöðuna við HR vera framúrskarandi og boðleiðir séu stuttar enda allir undir einu þaki og auðvelt sé að nálgast sérfræðinga við háskólann. Hann hefur einnig átt gott samstarf við verkfræðideild HÍ og rannsóknarfólk í Læknagarði og í Blóðbankanum og á Landspítala þar sem hann hefur einnig unnið rannsóknir sínar og framkvæmt ýmsar prófanir.
Það sem heillar mig hvað mest við rannsóknirnar mínar er hversu þverfaglegar þær eru. Ég get leitað til margra ólíkra sérfræðinga eftir ráðgjöf hverju sinni og lært af þeim. Það er mjög gefandi að starfa á þessu sviði vegna þess að þú getur haft raunveruleg áhrif á heilsu fólks. Þegar við eldumst hrörnar brjósk oft og slitgigt er til dæmis algeng. Vandinn er sá að brjóskið í liðunum endurnýjar sig ekki sjálft, þannig að við erum að reyna að rækta og búa til nýtt brjósk. Ég vona að rannsóknir mínar geti einn daginn haft áhrif á heilsu fólks um allan heim með því að gera kleift að búa til heilbrigt brjósk sem hægt er að græða í fólk.
Í mars mun Gabriele halda til Taípei á Taívan í þriggja mánaða Erasmus nemendaskipti og hyggst síðan verja doktorsverkefni sitt við HR í haust. Hann segist innblásinn af leiðbeinendum sínum þeim Óla og Paolo, sem starfa bæði við rannsóknir og kennslu, og langar að feta svipaða braut í framtíðinni.
Mig langar að gegna nýdoktors stöðu og halda áfram á þessari leið við mínar rannsóknir. Mér líður vel á Íslandi og ég hef verið heppinn að vinna með Paolo, sem hefur byggt upp samheldið og líflegt ítalskt samfélag innan HR, sem og með Óla og öðrum leiðbeinendum og nemendum sem ég hef starfað með í rannsóknum mínum.
Dagsetning
Deila