Námið
Rannsóknir
HR
15. janúar 2026

Nemendur í réttarsálfræði kryfja sakamál í hlaðvarpsþáttum

Hlaðvörp nemenda í réttarsálfræði, þar sem þeir taka fyrir raunveruleg sakamál til umfjöllunar, eru nú komin í loftið. Bryddað var upp á þessari nýjung í námsmati í fyrra og ákveðið að endurtaka leikinn í ár þar sem að verkefnið vakti ánægju meðal nemenda.

Í umsögn um verkefnið sögðust nemendur m.a. hafa öðlast dýpri skilning á hugtökum og ferli sakamála við það að kynna sér allar hliðar málsins gaumgæfilega. Eins hefði verið skemmtileg áskorun að læra að setja fram langa og flókna sögu í mun styttra máli.

Réttarsálfræði er fræðigrein sem leitast við að skilja afbrot, af hverju þau eiga sér stað, hvernig sé hægt að grípa inn í og hvernig megi hagnýta sálfræðilega þekkingu í réttarkerfinu. Verkefnið snerist um að velja sér raunverulegt sakamál til að fjalla um og setja í vísindalegt samhengi við þær rannsóknir og hugtök sem nemendur læra í námskeiðinu.

Rannveig S. Sigurvinsdóttir, dósent við sálfræðideild, segir verkefnið hafa komið vel út.

Hlaðvarpsverkefnið er klárlega komið til að vera þar sem nemendur tala mikið um hvað verkefnið hafi hjálpað þeim að dýpka skilning þeirra með því að velja sjálf sakamál sem þau hafa áhuga á og greina með kenningum og hugtökum úr námskeiðinu. Þar að auki finnst þeim þetta skemmtilegt. Við höfum gert þetta núna tvö ár í röð og ég átti alveg eins von á að nemendur myndu velja að miklu leyti sömu mál og í fyrra. Svo reyndist ekki vera en það bættust við ný mál, sem ég hafði meira að segja aldrei heyrt um, og það var mjög gaman að sjá.

Segir Rannveig en tengla á hlaðvörpin má finna hér að neðan.

15. janúar 2026
Nýjustu fréttirnar