Námið
Rannsóknir
HR

17. febrúar 2025

Öflugur hópur vísindamanna til liðs við verkfræðideild HR

Nýverið hófu fjórir nýir akademískir starfsmenn störf við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, þau Lulu Wang, Ingunn Guðbrandsdóttir, Luca De Gennaro Aquino og Vala Hjörleifsdóttir.

„Verkfræðideild HR leggur áherslu á fjölbreytt námsframboð og frelsi til að móta nám sitt að eigin áhugasviði og þörfum. Deildin hefur á að skipa öflugu teymi kennara með sérfræðikunnáttu á fjölmörgum greinum tækni og vísinda. Það er sérstaklega ánægjulegt að bjóða velkominn þennan öfluga hóp fólks, sem mun bæði efla og styrkja fjölbreytt rannsóknastarf deildarinnar og kennsluframboð,“ segir Ármann Gylfason deildarforseti verkfræðideildar HR.

Kona í gulum jakka.
Dr. Lulu Wang.

Dr. Lulu Wang er prófessor við verkfræðideild HR. Hún er með doktorspróf í verkfræði frá Auckland University of Technology í Nýja Sjálandi. Áður en hún kom til starfa í HR var hún prófessor og forstöðumaður við Biomedical Device Innovation Center í Shenzhen Technology University í Kína. Lulu býr yfir sérþekkingu á fjölbreyttum sviðum, þar á meðal lífrafsegulfræði, gervigreind, krabbameini, örbylgjuskynjun og myndgreiningu, lífeindatækni, og rafsegulskynjun og myndgreiningu.

Kona í svörtum jakka.
Ingunn Guðbrandsdóttir.

Ingunn Guðbrandsdóttir er aðjúnkt við verkfræðideild HR og kennir í rekstrarverkfræði. Hún er að ljúka doktorsprófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og kemur til HR frá Marel þar sem hún hefur unnið í stefnumótun og þróun sl. þrjú ár. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Ingunn hvernig líkangerð (e. modelling) getur stutt við stefnumörkun (e. policy making) og sjálfbærniumskipti (e. sustainability transitions) í matvæla kerfum (e. food system) með sérstakri áherslu á laxeldi.

Maður í svartri peysu.
Dr. Luca De Gennaro Aquino.

Dr. Luca De Gennaro Aquino er lektor í fjármálaverkfræði við verkfræðideild. Hann er með doktorspróf frá Grenoble Ecole de Management í Frakklandi, en doktorsritgerð hans fjallaði um trausta ákvarðanatöku og óvissu í líkanagerð. Að loknu doktorsnámi var hann með stöðu nýdoktors, fyrst í Southern University of Science and Technology í Shenzhen í Kína og síðan við Kaupmannahafnarháskóla. Rannsóknir Luca snúa aðallega að ákvarðanakenningum, og þá sem tengjast sérstaklega eignasafnsvali og tímavanhverfu.

Kona í brúnum jakka.
Dr. Vala Hjörleifsdóttir

Dr. Vala Hjörleifsdóttir er dósent við verkfræðideild HR. Hún er jarðskjálftafræðingur og kom frá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún var forstöðukona nýsköpunar og framtíðarsýnar. Vala er með doktorsgráðu í jarðeðlisfræði með áherslu á jarðskjálftafræði frá California Institute of Technology. Rannsóknir hennar beinast að því hvernig bæta má jarðhitaleit og eftirlit með náttúruvá, t.d. með ljósleiðaratækni.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir