Námið
Rannsóknir
HR

13. október 2025

Rætt um lausnir til að færa heiminn nær sjálfbærni

Ráðstefnan KIFEE fór fram í 12. sinn, við Háskólann í Reykjavík, í Opna háskólanum dagana 5. til 7. október. Um er að ræða samstarf milli háskóla í Japan, Noregi og á Íslandi. Á ráðstefnunni voru 80 gestir, flestir frá Japan, Noregi og Íslandi.

Á ráðstefnunni voru 80 gestir, flestir frá Japan, Noregi og Íslandi.

The Kyoto International Forum for Environment and Energy (KIFEE) eru samtök háskólana í Kýótó héraði í Japan og tækniskólans (Norwegian University of Science and Technology NTNU) í Þrándheimi, sem stofnuð voru í framhaldi af  Kýótó-bókuninni og hafa það hlutverk að stuðla að sjálfbæru samfélagi.

Fyrsta KIFEE ráðstefnan var haldin í Kýótó í nóvember 2004. Í kjölfarið fylgdu 9 KIFEE ráðstefnur á 18 mánaða fresti í Japan og Noregi. Eftir hlé vegna Covid, var 11. KIFEE ráðstefnan haldin í Tendo, Japan í mars 2024. Frá og með 2025 er Háskólinn í Reykjavík meðlimur í KIFEE.

Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, prófessor við verkfræðideild HR, ásamt góðum hópi vísindamanna, í samstarfi við Noreg og Japan kom að skipulagi ráðstefnunnar ásamt starfsfólki Opna háskólans. Fyrirlesarar voru frá Íslandi, Noregi og Japan en auk þess kynntu nemendur frá þessum löndum verkefni sín fyrir þátttakendum. 

Ánægðir ráðstefnugestir í Opna háskólanum.

Guðrún segir ráðstefnuna hafi tekist mjög vel þrátt fyrir að stormurinn Amy hafi setti strik í reikninginn og raskað ferðaplönum sumra ráðstefnugesta. Allir hafi lagt sig fram um að laga dagskrána að breyttum aðstæðum og hrósar Guðrún þar sérstaklega starfsfólki Opna háskólans. Hún segir margt fróðlegt hafa komið fram í þeim erindum sem flutt voru á ráðstefnunni;

Ráðstefnan snerist um lausnir til að færa heiminn nær sjálfbærni og voru flutt erindi um nýjar kolefnishlutlausar leiðir til að framleiða málma, til að mynda ál og kísil með notkun eðalskauta við rafgreiningu, eða mangan með því að rafgreina bráðið hraun. Einnig var fjallað um sjaldgæfa jarðmálma, hvernig má koma upp virðiskeðju í Japan eða Evrópa til að viðhalda framboði af þessum nauðsynlegu efnum, og verða minna háð þeirri kínversku einokun sem ríkir í dag. Jafnframt var fjallað um nýjungar í líftækni, framfarir í orkukerfum heimsins sem og hvernig best er að flétta sjálfbærni með gagnlegum hætti inn í tækninám.

Guðrún segir slíka viðburði mikilvæga til að mynda tengsl og kynnast fólki sem kann að verða verðmætir samstarfsaðilar. Einnig hafi KIFEE fundirnir stuðlað að nemendaskiptum og heimsóknum vísindafólks á milli háskóla.

Að heimsækja háþróaðar tilraunastofur erlendis, og fá að nýta þá aðstöðu til eigin rannsókna, færir manni sýn á hvernig byggja má upp aðstöðu í fremstu röð hér hjá okkur, og nýta hana til rannsókna og nýsköpunar, íslensku samfélagi til framdráttar.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir