30. maí 2025
Rannsóknir og menntun á sviði netöryggis innan Frostbyte rannsóknastofunnar
30. maí 2025
Rannsóknir og menntun á sviði netöryggis innan Frostbyte rannsóknastofunnar
Svokölluð Frostbyte vinnustofa var haldin þann 23. maí síðastliðinn og markaði formlega opnun Frostbyte rannsóknastofunnar fyrir nemendur. Um er að ræða sameiginlegt framtak Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands, með það að markmiði að efla rannsóknir og menntun á sviði netöryggis. Á viðburðinum komu saman nemendur og starfsfólk frá báðum háskólunum til að taka þátt í fróðlegum erindum, líflegum umræðum og tengslamyndun, þar sem netöryggi var í brennidepli.
Á viðburðinum fluttu nemendur erindi sem veittu innsýn í núverandi verkefni og viðfangsefni. Tvö erindi voru verðlaunuð sérstaklega, frá HR Scan Iceland: Vᛟlva – Architecture and Implementation of a Continuous National Network Scanner eftir Martein Lunda Kjartansson og Emilíu Maidland og frá HÍ Accidental pentest – why not to cod, í flutningi Birgis Sigurðssonar.
Þátttakendur tóku þátt í umræðu í hópum þar sem ýmsar hugmyndir um framtíðarannsóknir og verkefni voru rædd. Má þar nefna rannsóknir á öryggi flugumferðarstjórnunar, dróna og möguleika á misnotkun þeirra, auk tölvuöryggis í skólum, kennslu og vitundarvakningu um netöryggi í skólum og skammtatölvukóðun í heilbrigðisgeiranum.
Frostbyte rannsóknarstofan var stofnuð með stuðningi úr Evrópusambandinu í gegnum NCC-IS (Eyvör) og Defend Iceland styrkina. Hún var formlega kynnt á viðburðinum og gestir fengu að sjá aðstöðu rannsóknarstofunnar.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir