Sérhæfing ungra barna eykur líkur á brottfalli úr íþróttum
RIG-ráðstefnan fór fram á vegum íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík nýverið. Ráðstefnan var hluti af Reykjavíkurleikunum og haldin í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ, ÍBR, Háskólann í Reykjavík og Reykjavíkurleikana.
Á ráðstefnunni var einblínt á snemmtæka afreksvæðingu í íþróttum barna og ungmenna og áhrif hennar á ungt fólk og fjallað þar um nýjustu rannsóknir og mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli keppni og vellíðanar í íþróttum barna og ungmenna.

Ráðstefnan var virkilega vel heppnuð og greinilega þörf á að ræða þetta viðfangsefni. Það er mikilvægt að öll þau sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar haldi áfram að vera meðvituð um að halda úti uppbyggilegu og heilbrigðu íþróttastarfi barna og ungmenna. Við við Íþróttadeild HR munum halda áfram að leggja okkur að mörkum m.a. með því að halda umræðunni lifandi.
Segir Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor og deildarforseti íþróttafræðideildar, sem var ráðstefnustýra ásamt Hjördísi Guðmundsdóttur.

Meðal þeirra sem fluttu erindi var Dr. Peter Donahue, prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík. Hann fór í erindi sínu yfir rannsókn sína á þátttöku Íslendinga í íþróttum. Greiningin byggir á gríðarlega umfangsmiklum skráningargögnum frá árunum 2003–2024 frá öllum íþróttafélögum landsins en gögnin koma frá fyrirtækinu Abler úr skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ.
Er niðurtstaða Peter sú að börn sem prófa margar íþróttir þegar þau eru á aldrinum 10–15 ára séu mun líklegri til að vera áfram virk í íþróttum sem ungmenni. Sérhæfing ungra barna auki hins vegar líkurnar á brottfalli þeirra úr íþróttum. Til viðbótar sýndu gögnin að iðkendur sem stunduðu aðeins eina íþrótt snemma á unglingsárum voru líklegri til að hætta alfarið en jafnvel þeir sem stunduðu enga íþrótt.

Einnig flutti erindi Mark Joseph O'Sullivan, frá Norska íþróttaháskólanum (NIH). Erindi hans bar yfirskriftina Sport is for children, not the other way around (where are we now, and where can we go?) og gagnrýndi hann í því snemmvæðingu í barna- og unglingaíþróttum og þá þróun sem hann kallaði blekkingu.

Siubhéan Crowne deildi reynslu sinni sem starfsmaður og rannsakandi við enskar knattspyrnuakademíur og flutti erindi er bar yfirskriftina; Exploration of the sport psychology programme of a Category 1 English football academy. Hennar megin niðurstaða er sú að fótboltaakademíur ættu ekki að taka við börnum yngri en 13 ára

Martin Camiré flutti erindið; Professionalisation in Youth Sport: Key Considerations and Future Directions. Camiré er prófessor við School of Human Kinetics við University of Ottawa í Ottawa í Kanada. Hann hefur í rannsóknum sínum m.a. skoðað hvernig megi efla ýmsa þætti þroska í gegnum íþróttastarf barna og unglinga.
Í lok ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður.
Ráðstefnan var virkilega vel heppnuð og greinilega þörf á að ræða þetta viðfangsefni.
Það er mikilvægt að öll þau sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar haldi áfram að vera meðvituð um að halda úti uppbyggilegu og heilbrigðu íþróttastarfi barna og ungmenna. Við við Íþróttadeild HR munum halda áfram að leggja okkur að mörkum m.a. með því að halda umræðunni lifandi.
Dagsetning
Deila