26. september 2025
Snjallræði á Hönnunarþingi 2025
26. september 2025
Snjallræði á Hönnunarþingi 2025
Hönnunarþing (Design Thing) fram á Húsavík nú um helgina, dagana 26.–27. september. Er um að ræða árlega hátíð hönnunar og nýsköpunar sem hefur vaxið hratt og er nú einn af mest spennandi vettvöngum skapandi greina á Íslandi.

Þema þingsins í ár er matur og hvernig hann birtist í hönnun og nýsköpun. Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, vinnustofum, uppákomum, sýningum, tónleikum og matarviðburðum. Meðal gesta eru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar allt frá frumkvöðlum til hönnuða og listamanna.
Af þessu tilefni verður önnur vinnustofa Snjallræðis af fjórum haldin samhliða Hönnunarþingi. Það er Háskólinn á Akureyri sem leiðir vinnustofuna en með henni er ætlað að tengja sprotahönnun Snjallræðis við þann kraftmikla suðupott sem þingið er. Að vinnustofunni koma einnig Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík en háskólarnir þrír undirrituðu samstarfssamning nú í ágúst um sameiginlega verkefnastjórn Snjallræðis.
Á vinnustofunni fá frumkvöðlar að þróa hugmyndir sínar áfram með aðferðum sprotahönnunar en jafnframt að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá Hönnunarþings. Þannig sameinast markviss vinna innan Snjallræðis og opinn vettvangur þingsins, þar sem tengslamyndun, speglun og innblástur skipta lykilmáli.
Snjallræði hefur frá stofnun árið 2018 verið leiðandi vettvangur fyrir þróun framtíðarlausna er stuðla að sjálfbærni og bættu samfélagi. Í Snjallræði fá frumkvöðlar tækifæri til að þróa áfram hugmyndir sínar og gera þær að lausn, vöru eða verkefni. Snjallræði er ætlað vísindafólki, nemendum og starfsfólki háskólanna en er auk þess opið frumkvöðlum og öllum þeim sem brenna fyrir stórum hugmyndum.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir