1. október 2025
Styrktarþjálfun frábær leið til að vekja áhuga barna á heilbrigðum lífsstíl
1. október 2025
Styrktarþjálfun frábær leið til að vekja áhuga barna á heilbrigðum lífsstíl
Dr. Rick Howard, sérfræðingur í styrktarþjálfun, hélt í síðustu viku fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann ræddi um mýtur varðandi styrktarþjálfun barna. Howard segir slíkar mýtur enn vera algengar meðal foreldra og þjálfara svo og í fjölmiðlum.
Þar beri mest á mýtum um skort á öryggi, vaxtarskerðingu, meiðsli og fleira. Rannsóknir hafi hins vegar sýnst að styrktarþjálfun fyrir börn og unglinga sé ekki aðeins örugg, heldur hreinlega nauðsynleg.
Styrktarþjálfun er frábær leið til að vekja áhuga barna á því að vera hraust, þróa með sér heilbrigðan lífsstíl og auka sjálfstraust þeirra og færni. Þjálfunin gengur ekki eingöngu út á að styrkja sig heldur getur hún einnig aukið liðleika, dregið úr hættu á meiðslum og aukið árangur í íþróttum.
Howard hefur kennt í diplómanámi í styrk- og þrekþjálfun við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík frá því að námið hófst árið 2022. Aðal takmarkið með styrk- og þrekþjálfun er að hjálpa fólki á öllum aldri til að lifa heilbrigðu lífi, hvort sem það er í daglegu lífi eða í keppnisíþróttum.

Spurður um rannsóknir, sem sýni fram á ávinning styrktarþjálfunar fyrir börn og unglinga, segir Howard þær þegar hafa sýnt fram á slíkt á áttunda og níunda áratugnum. Með tímanum hafi hins vegar sífellt fleiri gert sér grein fyrir ávinningnum.
Með áframhaldandi rannsóknum hafa sífellt fleiri innlendar og alþjóðlegar stofnanir á sviði þjálfunar, vísindafólk á sviði íþróttavísinda og barnalæknar aðhyllst styrktarþjálfun ungmenna sem örugga og árangursríka fyrir ungmenni. Á móti kemur að því miður er ekki alltaf tryggt að farið sé eftir þeim leiðbeiningum sem settar hafa verið fram af innlendum og alþjóðlegum sérfræðingum. Þetta er nokkuð sem þarf að samræma og fylgja betur eftir.
Rick segir að til að útrýma lífseigum mýtum sé einmitt mikilvægt að setja fram alþjóða viðmið fyrir örugga og árangursríka styrktarþjálfun. Tryggja þurfi að styrktarþjálfun ungmenna fari fram undir eftirliti hæfra og vel menntaðra leiðbeinenda. Þá þurfi að fræða forystufólk íþróttafélaga, þjálfara, foreldra og ungmenni um ávinning styrktarþjálfunar.
Upptökuna af fyrirlestrinum má nálgast hér:
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir