Námið
Rannsóknir
HR
4. nóvember 2025

RU Connect veitir tækifæri á að upplifa andrúmsloftið í HR á nýjan leik

Félag útskrifaðra nemenda frá viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík, RU Connect, verður formlega stofnað fimmtudaginn 6. nóvember. Fyrsti viðburðurinn fer þá fram í Olympus á þriðju hæð háskólans frá kl. 17:00–19:00. Katrín Ólafsdóttir, deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar, býður gesti velkomna, og að því loknu mun Ari Eldjárn skemmta gestum með uppistandi.

Elín Helga Lárusdóttir, veitir viðurkenningu á Forsetalistaathöfn fyrr í haust.

Elín Helga Lárusdóttir, forstöðukona BSc náms við viðskipta- og hagfræðideild, útskrifaðist árið 2021 með BSc í viðskiptafræði frá deildinni og hefur starfað við HR síðan 2023. Hún hefur komið að skipulagningu félagsins og segir hugmyndina með því vera að fólk geti haldið í tengslin bæði við fyrrum samnemendur, kennara og starfsfólk;

Þú kynnist fullt af fólki í grunnnámi, bæði kennurum og nemendum. Það getur því verið dálítið skrýtið að skiljast að frá góðum hópi þegar þú útskrifast og ferð út á vinnumarkaðinn. Með félaginu viljum við auðvelda fólki að halda í þessi mikilvægu tengsl við hópinn sinn sem er mjög í anda HR en innan veggja skólans er mikið félagslíf, auðvelt að nálgast kennara og starfsfólk og gott að vera í húsinu þar sem er lifandi og skemmtilegt umhverfi.

Alls hafa yfir 6.000 nemendur útskrifast frá viðskipta- og hagfræðideild (áður viðskiptadeild) á árunum 2000-2025, úr grunn-meistara- og doktorsnámi. Elín Helga segir það hafa reynst nokkuð verk að ákveða hvar ætti að byrja og hvernig ætti að ná til fyrrum nemenda, kennara og starfsfólks. Þar hefur LinkedIn reynst einna best en fyrir áhugasama er einnig hægt að skrá sig í RU Connect hér fyrir neðan.

Við erum ánægð með að hafa komið þessu af stað enda er alumni starf mikilvægt t.a.m. varðandi alþjóðlega gæðavottanir. Varðandi komandi viðburði þá er ætlunin að móta dagskrána samkvæmt óskum félagsfólks en við sjáum fyrir okkur m.a. viðburði þar sem lögð er áhersla á tengsl og spjall í bland við fræðsluerindi um það sem er efst á baugi í umræðunni hverju sinni. Ég hvet öll sem hafa verið hjá okkur í námi eða starfi að skrá sig í félagið, með því gefst tækifæri á að hitta gamla hópinn, koma sér á framfæri og upplifa andrúmsloftið í HR á ný.

4. nóvember 2025
Nýjustu fréttirnar