Námið
Rannsóknir
HR

12. desember 2025

Tóku”dress for success” bókstaflega í prófatíð

Hildur Davíðsdóttir, hóf störf í tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík í haust og kenndi Forritun I áfangann við tölvunarfræðideild. Þegar Hildur kynnti fyrirkomulag lokaprófsins fyrir nemendum u.þ.b. tveimur vikum fyrir prófið, lét hún fylgja með nokkur heillaráð. Nokkrir nemendur tóku hana sannarlega á orðinu varðandi eitt heillaráðið og mættu jakkafataklæddir alla prófaönnina.

Þetta var ansi skemmtileg uppákoma sem spratt upp úr því að ég kynnti fyrir þeim nokkur heillaráð sem hafa virkað vel fyrir mig í prófatíð. Eitt þeirra var "Dress for success" en það eru ákveðin vísindi á bak við það að maður standi sig betur þegar maður er í bestu buxunum sínumm bestu peysunni, o.s.frv. Í raun var ég bara að reyna að fá þau til að forðast það að mæta í náttgallanum eins og stundum vill vera.

Ernir Elí Ellertsson (vinstri) og Jeremias Borjas Tablante (hægri), voru meðal þeirra sem mættu í öll sín próf jakkafataklæddir.

Segir Hildur og bætir við að nokkrir herramenn hafi brugðið á það ráð að túlka þessa línu bókstaflega og mæta í öll próf jakkafataklæddir, henni og öðrum til skemmtunar.

Það verður nú eiginlega að fylgja sögunni að þessir tveir á myndinni, þeir Ernir Elí Ellertsson og Jeremias Borjas Tablante, voru meðal þeirra sem mættu í öll sín próf jakkafataklæddir og eru báðir með einkunn sem skilar þeim á topp-fimm listann í lokaprófinu í forritun. Hvort það sé jakkafötunum að þakka skal ég ekki segja en þau hafa í það minnsta ekki skaðað.

Bætir Hildur við í léttum dúr að lokum.

Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir