30. október 2025
Tvær vísindakonur frá HR hljóta Nordic Women in Tech Awards
30. október 2025
Tvær vísindakonur frá HR hljóta Nordic Women in Tech Awards
Anna Sigríður Islind, prófessor við tölvunarfræðideild, og Bridget E. Burger, sérfræðingur hjá rannsóknarþjónstu HR hlutu nýverið svokölluð Nordic Women in Tech Awards. Verðlaun sem eru veitt árlega og tileinkuð kvenfyrirmyndum í tækniiðnaðinum.
Anna Sigríður hlaut verðlaunin Liva Echwald Awards, veitt til að heiðra og minnast danska frumkvöðulsins og stofnanda Female Founders of the Future (FFOF), Liva Echwald, sem lést langt fyrir aldur fram. Í þessum flokki eru tilnefndar vísindakonur, sem líkt og Liva, þykja vera fyrirmyndir í að leiðbeina ungum frumkvöðlum og eru óþreytandi talskonur fjölbreytni og inngildingar sem sýna konum að ekkert er ómögulegt.

Anna Sigríður segir verðlaunin vera mikill heiður og hún sé djúpt snortin að hafa verið valin handhafi Liva Eschwald verðlaunanna í ár.
Sem kona í tölvunarfræði hef ég alla tíð verið í minnihluta. Ég var þriðja konan sem ráðin var í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og sú fjórða í allri sögu Íslands til að hljóta stöðu prófessors í tölvunarfræði. Það má því með sanni segja að kvenfyrirmyndir úr tækniheiminum séu mér afar mikilvægar og Liva var ein þeirra. Rétt eins og hún gerði er ég staðráðin í að skapa vettvang þar sem konur og kynsegin einstaklingar geta séð tölvunarfræði og aðrar STEM-greinar (fræðigreinar á sviði verkfræði, raunvísinda, tækni, tölvunarfræði og náttúruvísinda) sem raunhæfan kost fyrir sig. Það er því engu minna en stórkostlegt að fá þessa viðurkenningu.
Anna Sigríður bætir við að það sé einnig kerfislægt og menningarlegt vandamál að of margar konur og kynsegin einstaklingar snúi baki við STEM greinum eftir nokkur ár í starfi. Þessu reyni hún ötullega að sporna við í sínu starfi.
Ég reyni að ryðja brautina fyrir næstu kynslóð og stuðla að smávægilegum en stöðugum breytingum til að skapa umhverfi og menningu þar sem konur og kynsegin einstaklingar geta ekki aðeins lifað af, heldur líka blómstrað.

Hefur beitt sér fyrir auknum tækifærum
Bridget hlaut verðlaun í flokknum Women in Tech Ally, veitt einstaklingum sem hvetja aðra og hafa haft raunveruleg áhrif í sínu samfélagi með því að fjölga konum innan tæknigeirans síðastliðin tvö ár.
Það var sannarlega heiður fyrir mig að vera tilnefnd svo ég tali nú ekki um að hljóta verðlaunin og það fyrir Íslands hönd þar sem ég hef ekki búið hér svo lengi. Í fjölda ára hef ég í starfi mínu beitt mér fyrir að auka tækifæri stúlkna og kvenna innan STEM greinanna, allt frá leikskóla til háskóla. Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að ryðja brautina, veita þeim frekari tækifæri og brjóta niður múra og því heiður að fá viðurkenningu fyrir það.
Bridget bætir við að verðlaunin undirstriki mikilvægi þess bæði fyrir HR og samfélagið í heild að styðja við bakið á þeim konum sem starfi við STEM greinar.
Þessi verðlaun endurspegla þann áhrifamátt og þann kraft sem felst í því að vinna að velferð annarra og þau minna okkur á að hvert og eitt okkar, kennarar sem starfsfólk, getur lagt sitt af mörkum og haft áhrif með því að vera bandamaður kvenna í STEM-greinum. Þá er afrek fyrir HR að eiga tvo verðlaunahafa enda er lagt upp úr því innan háskólans að ná framúrskarandi árangri og styðja við fjölbreytt háskólasamfélag.
Góður árgangur en enn mikið verk fyrir höndum
Verkefnið Stelpur, stálp og tækni, var sett á fót við Háskólann í Reykjavík árið 2014 sem liður í því að hvetja konur til náms í tæknigreinum. Þá er stelpum og stálpum úr 9. bekkjum grunnskóla boðið í háskólann og tæknifyrirtæki. Viðburðurinn er haldinn að erlendri fyrirmynd en Girls in ICT Day er fagnað á heimsvísu ár hvert.

Einnig starfar við HR félagið /sys/tur hagsmunafélag kvenna og kvára í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Þess má geta að félagið var tilnefnt til verðlauna á Nordic Women in Tech Awards árið 2023 en markmið þess er að skapa tengslanet meðal hópsins og efla áhuga og þátttöku í greininni.
Þá hefur verið haldið hakkaþon í samstarfi HR og HÍ við Women Tech Iceland í gegnum European Digital Innovation Hub – Iceland (EDIH-IS) sjóðinn sem Bridget verkefnastýrði fyrir hönd HR. Í gegnum hann hefur einnig myndast samstarf við Rannís um að mynda tengslanet kvenna í tækni sem er nú að teygja sig yfir Evrópu.
Þær Bridget og Anna Sigríður eru sammála um mikilvægi og góðan árangur þess starfs sem þegar er haldið úti en betur megi ef duga skal og enn sé mikið verk fyrir höndum.
Við óskum þeim Önnu Sigríði og Bridget innilega til hamingju með árangurinn.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir