25. september 2025
Vaxtarsproti ársins er Aldin Dynamics með 514% vöxt í veltu
25. september 2025
Vaxtarsproti ársins er Aldin Dynamics með 514% vöxt í veltu
Sprotafyrirtækið Aldin Dynamics hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis en velta fyrirtækisins jókst um 514% milli ára, fór úr 151 milljón króna í 929 milljónir króna. Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, afhenti Vaxtarsprotann 2025 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal í gær.
Aldin Dynamics vinnur að þróun tölvuleikja og hugbúnaðartækni sem gerir notendum kleift að eiga raunsæ samskipti við gervigreindar-karaktera í sýndarheimum. Félagið byggir á margra ára reynslu í sýndarveruleika og markar með þessu nýtt skref í stafrænni upplifun framtíðarinnar. Fyrirtækið hefur tvö einkaleyfi sem tengjast greiningu á hegðun notenda, auk fjölda skráðra vörumerkja í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal Waltz of the Wizard sem hefur selst í yfir milljón eintökum erlendis. Vörur Aldin Dynamics eru hannaðar fyrir alþjóðlega markaði og nánast allar tekjur félagsins koma utan frá.
Thor Ice Chilling Solutions hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Velta fyrirtækisins jókst um 531% á milli ára, fór úr 39 milljónum króna í tæplega 247 milljónir króna. Thor Ice Chilling Solutions þróar og framleiðir vörur fyrir kælingu á ferskvöru, sérstaklega í kjúklingavinnslum. Markmið fyrirtækisins er að hjálpa matvælaframleiðendum að spara orku, fækka bakteríum og auka gæði afurða til neytenda. Markaðir Thor Ice Chilling Solutions eru nær eingöngu erlendis en fyrirtækið hefur selt búnað til stærstu matvælaframleiðenda í Evrópu og er með viðskiptavini meðal annars í Frakklandi, Hollandi, Póllandi, Kanada og Saudi Arabíu.

Gunnar Steinn Valgarðsson og Hrafn Þorri Þórisson, stofnendur Aldin Dynamics, kynntust þegar þeir voru í námi í HR en þeir stunduðu báðir rannsóknir við skólann eftir útskrift:
Þessi viðurkenning er okkur mikill heiður og hvatning til áframhaldandi starfa. Við viljum þakka sérstaklega uppbyggjandi sprotaumhverfi á Íslandi sem hefur veitt okkur byr undir báða vængi í gegnum tíðina. Við vonum innilega að sem flestir frumkvöðlar nýti sér þetta einstaka nýsköpunarumhverfi, taki skrefið fram á við og láti hugmyndir sínar verða að veruleika. Við hjá Aldin stefnum á að halda áfram okkar vegferð að þróa upplifanir sem sameina nýjustu tækni og listform á nýjan og aðgengilegan hátt.
Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR sagði í ávarpi sínu að aukinn stuðningur og skýr rammi við nýsköpun innan HR kæmi meðal annars fram í fjölda einkaleyfaferla sem hefur aukist síðustu ár og aukinn fjölda fyrirtækja sem verða til vegna stuðnings skólans. Þá lagði hún líka áherslu á mikilvægi þess að hlúa að því fólki sem kýs að mennta sig á tímum þar sem tækninni fleygir fram:
Við þurfum kraftmikið og djúpt hugsandi fólk sem er tilbúið að mennta sig og leiða þróunina áfram. Og til þess þurfum við öfluga háskóla. Nýsköpun kemur nefnilega ekki til úr engu. Hún verður til þegar fólk sér tækifæri eða vanda sem það lamast ekki gagnvart heldur hefur forsendur til að grípa og leysa. Og þegar tæknin er jafn yfirgnæfandi þáttur í lífi okkar og breytist jafn hratt og undanfarin ár, er ljóst að nýsköpun á Íslandi er háð háskólaumhverfi sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Vaxtarsprotinn er afhentur þeim sprotafyrirtækjum sem sýna mestan vöxt í söluveltu milli síðasta árs og ársins á undan. Skilyrði fyrir tilnefningu er að frumkvöðull sé til staðar í fyrirtækinu og fyrirtækið má ekki vera í meirihlutaeigu fyrirtækis á meðal 100 stærstu á Íslandi, fyrirtækis á aðallista Kauphallar eða vera sjálft á aðallista Kauphallar. Einnig er veitt viðurkenning til sprotafyrirtækja sem náð hafa þeim árangri á síðasta ári í fyrsta sinn að velta meira en einum milljarði króna.
Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka Iðnaðarins, Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (RANNÍS), Samtaka sprotafyrirtækja og Háskólans í Reykjavík. Tilgangur Vaxtasprotans er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Þetta er í 19. sinn sem Vaxtarsproti ársins er afhentur. Í dómnefnd sátu Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís og Erla Tinna Stefánsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins.
Nýjustu fréttirnar
Sjá allar fréttir